spot_img
HomeFréttirBenni penni: Syng þjóðsönginn ef Höllin verður full

Benni penni: Syng þjóðsönginn ef Höllin verður full

17:40

{mosimage}

Það er best að byrja þennan pistil á að taka skýrt fram að það verður ekki minnst meira á vin minn Inga Þór Steinþórsson í þessum pistlum. Kyndingarnar með Lúxor, G-strenginn og rauða naglalakkið kostuðu nánast vinskap og í kjölfarið fylgdu ógeðfelldar hótanir um hefndaraðgerðir. Vil biðja Inga afsökurnar á þeim óþægindum sem hann hefur orðið fyrir eftir síðasta pistil. Þessi pistill á örugglega eftir að verða skrítinn þar sem ég er ekki ennþá búinn að jafna mig andlega eftir bíóferð sem ég fór um daginn. Þar varð ég vitni að fyrrum James Bond syngja væmin ABBA lög í myndinni Mamma Mia. Á dauða mínum átti ég von á en ekki að sjá töffarann "007" raulandi og vandræðalegan í músí, músí mynd. Verð vonandi búinn að ná mér aftur fljótlega.  ABBA lögin voru að sjálfsögðu að gera galdra enda mikil klassík þar á ferð.

Við KR-ingar tókum þátt í Ljósanæturmótinu í Keflavík og síðan hinu árlega Valsmóti. Eitthvað virðist áhugi liða á Valsmótinu vera að dvína því aðeins 4 lið úr IE-deildinni tóku þátt þetta haustið ásamt þremur 1. deildar liðum. Ekki er langt síðan að Valsmótið var þéttskipað öllum helstu liðum landsins og fjöldi fólks lagði leið sína til bera liðin og erlenda leikmenn þeirra augum. Man að "vinkonur Ameríku" voru áberandi hópur á mótinu til fjölda ára. Engu að síður var ágætlega staðið að mótinu þarsíðustu helgi og ekkert hægt að setja út á framkvæmdina hjá Valsmönnum. Liðin fengu að finna fyrir breyttum áherslum á báðum þessum mótum og hefur maður t.d. aldrei orðið vitni af eins mörgum dæmdum ásetningsvillum eða óíþróttamannslegum villum, hvort sem menn vilja kalla þetta. Á eftir að taka leikmenn smá tíma að aðlagast nýjum áherslum og einnig dómara að læra að dæma eftir þessum áherslum. Það verður ekki tekið af þessum andskot. . .  dómurum að úrslitaleikurinn á Valsmótinu var hrikalega vel dæmdur. Þar fengu bæði lið að takast á innan skynsamlegra marka. Tek fram að ég tapaði þessum úrslitaleik. Maður er fæddur með "sterka réttlætiskennd" og læt ég dómara ávallt vita ef þeir gera mistök og svona til að vera samkvæmur sjálfum sér neyðist maður til að hrósa þeim þessi fáu skipti sem þeir gera eitthvað af viti. FIBA dómarinn Kristinn Óskarsson var annar dómarinn sem dæmdi þennan úrslitaleik og burt séð frá hversu vel Kristinn getur dæmt þá get ég ekki annað en dáðst af þeim gildum sem hann lifir eftir og falla algjörlega að mínum. Gildi eins og "If it aint broken, don´t fix it" og "If you got a good thing going, stick with it" eru algjörlega þau sömu og ég fer eftir. Við Kristinn eigum það sameiginlegt að halda tryggð við sömu hárgreiðsluna enda algjörlega út í hött að breyta bara til að breyta og vitna ég í þessi tvö spakmæli hér á undan því til rökstuðnings.  Annars voru dómarar að halda sinn árlega haustfund í lok ágúst og það ávallt forvitnilegur fundur og fáir sem gera sér grein fyrir hversu valdamikill sá fundur er. Þar koma dómarar saman að hausti og ákveða t.d. hverjir verða Íslandsmeistarar næsta vor í meistaraflokki karla og kvenna. Held að þeir haldi opnu hverjir verða bikarmeistarar. Er þetta ekki bara nokkuð góð samsæriskenning?

Eins og svo margir þá skellti ég mér í Höllina og sá Ísland leggja Dani. Fínt að byrja á sigri og alltaf gott að vinna Dani. Okkur hefur gengið misjafnlega með þá í gegnum tíðina og skiptir engu máli þó svo að þeir væru búnir að missa lykilmenn, sigurinn var góður. Svona fyrirfram taldi ég raunhæft hjá landsliðinu að vinna Dani hér heima og Austurríki úti í þessari fyrri umferð. Að vinna Holland úti og Svartfjallaland heima yrði algjör bónus þó svo að það sé klárlega hægt með topp leik. Þrátt fyrir tap gegn Hollandi út erum við á pari að mínu mati. Tapið var kannski full stórt og gerir okkur erfitt fyrir að vinna upp til að eiga innbyrðis á Hollendinga ef sú staða kæmi upp. Skilst samt að lokatölur gefi ekki alveg rétta mynd af gangi leiksins og leikurinn hafi verið jafnari en þessar tölur gefa til kynna. Gaman að sjá umgjörðina í kringum leikinn gegn Dönum í Höllinni. Frábært að sjá alla þessa sjálfboðaliða sem KKÍ hefur náð að virkja í kringum þessa heimaleiki. Svona til að fullkoma umgjörðina og kvöldið þá hefði verið sterkt hjá KKÍ að fá Bigga Mikk til að syngja þjóðsöngvana. Þeir vilja hugsanlega eiga það inni fyrir stórleikinn gegn Svartfjallalandi næsta miðvikudag nú eða ef við myndum lenda með Ungverjalandi í riðli einhvern tímann. Hvernig væri að við myndum fylla Höllina gegn Svartfjallalandi og mynda öfluga stemningu. Við erum að fá frábæra körfuboltaþjóð í heimsókn og við þurfum ekki nema 150 manns frá hverju félaga til að stappa í Höllina. Við erum að bera okkur saman við aðrir íþróttagreinar sem eru með uppselt á sína landsleiki á sama tíma og okkur vantar þessa samstöðu. Við fáum ekki svona sterkt landslið í heimsókn í hverjum mánuði og því um að gera að skella sér og sjá huggulegan körfubolta spilaðan. Ef Höllin verður full á morgun skal ég taka að mér að syngja þjóðsönginn í næsta heimaleik.

Þá hefur kvennalandsliðið lokið keppni þetta haustið. Eins og við var að búast máttu stelpurnar sætta sig við sannfærandi tap gegn Svartfjallalandi ytra. Það sem vakti samt athygli mína var frammistaða Helenu Sverrisdóttur. Að skora 34 stig gegn svona sterku liði er afburða frammistaða. Þetta er í annað sinn sem Helena er með fleiri skoruð stig en mínútur en hún lék sama leikinn gegn Hollandi. Þessar tvær þjóðir eru einmitt í tveimur efstu sætunum sem segir manni að Helena er að eiga sína bestu leiki gegn bestu andstæðingunum. Það er gríðarlegur kostur hjá leikmanni. Helena er heldur betur að láta til sín taka í tölfræðinni og er á topplistum yfir nánast hvern einasta tölfræðiþátt. Hún er t.d. stigahæst í B-keppninni og hefur gefið flestar stoðsendingar.  Annað sem vakti athygli mína í þessari ferð var þegar kvennalandsliðið tók létta æfingu á Kastrup flugvelli á leiðinni til Svartfjallalands. Man ekki að þetta hafi verið gert áður en þarna voru stelpurnar driplandi skóm og skjótandi ofan í ferðatöskur sem voru notaðar sem körfur. Í lokin skipti Ágúst Björgvinsson, þjálfari liðsins, í lið og var spilað á tvær ferðatöskur. Ágúst lét uppblásnu dúkkuna sína, sem hann tekur með í allar ferðir sem eru lengri en einn dagur, í það að vera í hlutverki dómara. Æfingin tókst í alla staði mjög vel og hefur A-landsliðsnefnd kvenna þegar sótt um 1 æfingu á viku í Leifstöð næsta sumar.

Það hefur verið rólegt í NBA að undanförnu. Mestu lætin búin og flestir að bíða eftir að næsta tímabil hefjist. Það var ein frétt í síðustu viku sem fékk mann til að staldra við og kanna nánar. Tveir félagar frá Kansas háskólanum komust í fréttirnar eftir að þeir voru reknir með skömm af nýliðananámskeiðinu sem er haldið á hverju hausti fyrir leikmenn sem eru að fara að feta sín fyrstu spor. Það eru strákar sem ýmist voru valdir í nýliðavalinu í júní eða hafa staðið sig í sumardeildum NBA og hafa náð að landa samningi. Þessir tveir leikmenn sem báðir voru valdir í nýliðavalinu síðast urðu uppvísir af að brjóta reglur á námskeiðinu. Báðir voru teknir í landhelgi með stúlkur inn á herbergi og reykjandi eitthvað allt annað og sterkara  en sígarettur. Það eru stífar reglur á þessum námskeiðum. Þessir strákar fá til að mynda ekki að klæðast hverju sem og það eru engir heimsóknartímar. Fyrir þá sem ekki vita þá eru þessi námskeið til að búa nýliða í NBA deildinni undir það sem koma skal. Þarna fá þessir drengir að hlýða á fyrrum NBA leikmenn sem þekkja vel þær hættur sem bíða handan við hornið ef menn eru ekki með kollinn í lagi. T.d. fá menn ráðgjöf í að höndla alla peningana sem menn þéna í NBA. Það er lítið mál að klúðra þeim öllum á skömmum tíma ef ekki að farið skynsamlega með þá. Einnig fá leikmennirnir rágjöf í hvernig eigi að höndla allar konurnar sem fara að sýna þeim áhuga þegar þeir eru orðnir ríkir og frægir. Margar klókar sem reyna ýmislegt til að verða óléttar af þessum köllum til að fá hluta af kökunni. Eftir því sem ég best veit þá er Jón Arnór eini íslendingurinn sem hefur sótt svona námskeið hjá David Stern og félögum en hann sat þar með Lebron James á skólabekk. Maður hefur oft velt því fyrir sér af hverju voru engin svona námskeið þegar maður var að byrja í þessu körfuboltaharki. Í staðinn þurfti maður að læra "the hard way" hvernig á að fara með þessar fúlgur sem maður fær fyrir að þjálfa og allt kvennfólkið sem fylgir faginu.

Svona áður en ég tek fyrir einn leikmann framtíðarinnar þá langar mig aðeins að rifja upp söguna. Við erum ekkert án fortíðarinnar og þeirra manna sem skópu söguna. Ég var að lesa gamla leikskrá sem ég komst yfir út í KR en hún var gefin út fyrir tímabilið 1965-1966. KR var að fara taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn en ÍR hafði tekið þátt tímabilið á undan. Í þessari leikskrá er umsögn um leikmenn sem mér langar að deila með ykkur. Við notum aðeins öðruvísi orðalag í dag en ég copy/paste-a þessar lýsingar nákvæmlega eins og þær eru skrifaðar á þessum tíma.

Þorsteinn Hallgrímsson: Spurt er í leikskránni hvað það sé sem skipar "Dodda" þannig skör hærra á bekk en aðra íslenska körfuknattleiksmenn. "Fyrst og fremst einstaklega vel uppbyggður líkami, geysilega mikill stökkkraftur, fullkomið jafnvægi, ásamt mjög góðri boltameðferð, hraða, góðri hittni á körfuna, og góðu auga fyrir samleik og að setja upp leikaðferðir. Þessir eiginleikar hans, ásamt einstæðu keppnisskapi svo og frábærri ástundun við æfingar hafa skapað honum nafnbótina, bezti körfuknattleiksmaður Íslands," segir í leikskránni. Kolbeinn Pálsson, tvítugur rakaranemi: "Eldsnöggur og geysifljótur, frábær varnarmaður og ört vaxandi sóknarmaður. Hann nær mörgum fráköstum. Einnig er hann lykilmaður í skyndiupphlaupum liðsins og skapar mörg tækifæri með því að grípa inn í sendingar andstæðingana," var sagt um þennan unga rakaranema á þessum tíma sem síðar afrekaði það að verða íþróttamaður ársins og er ennþá sá eini úr körfunni sem hefur afrekað það.

Einar Bollason, 22 ára lögfræðinemi: "Einar, sem leikur stöðu hægri framherja er traustur og reyndur leikmaður, tekur mikið af fráköstum og skorar yfirleitt mjög mikið enda frábærlega öruggur í körfuskotum. Varð stigahæstur í 1. deild á síðastliðnu Íslandsmóti með 22,2 stig í leik."

Jón Otti Ólafsson, 24 ára prentari: "Elzti maður liðsins. Mjög traustur varnarleiksmaður, harður og fylginn sér og góð skytta," var lýsingin á Jóni, en Jón náði að verða goðsögn bæði sem leikmaður og dómari. Geri aðrir betur.

Gunnar Gunnarsson, 20 ára bókhaldari: "Einn helzti uppbyggjari liðsins, lykilmaður að flestum leikaðferðum, einnig er Gunnar frábær skotmaður," er sagt um þennan öfluga og hlédræga bakvörð sem á magnaðan feril að baki sem leikmaður og þjálfari.

Enda þessa upprifjun á orðum meistara Boga Þorsteinssonar heitnum sem var formaður KKÍ á þessum tíma en Bogi hittir naglann í þessum orðum eins og hann gerði alltaf þegar hann opnaði á sér muninn. " Þess er lítil von, að smáþjóð geti borið sigurorð af stórþjóðum í landsleikjum í körfuknattleik eða Evrópukeppnum. Til þess eru aðstæður allar við æfingar og keppni, of ólíkar, og mismunurinn á þeim leikmannafjölda, sem liðið er valið úr, of mikill. Það er mikilvægt að sigra, en þó mikilvægara að hafa tekið þátt í drengilegum leik. Ég óska KR-ingum góðs gengis í baráttunni um Evrópubikarinn, hvorts sem þeir vinna nokkra sigra, eða ekki. Þátttaka þeirra veitir okkur tækifæri að sjá erlend lið keppa hér heima. Á slíkum heimsóknum er alltaf hægt að græða, kannske ekki fjárhagslega, heldur íþróttalega. Slík viðskipti við aðrar þjóðir, eru hverri íþróttagrein lífsnauðsynleg, ef við ekki að einangrast og hjakka stöðugt í sama farinu. ÍR og KR hafa riðið á vaðið og hafa þau þökk fyrir."

{mosimage}
(Mynd: Snorri Örn Arnaldsson)

Loka þessum pistli á framtíðarleikmanni eins og alltaf. Haukur Óskarsson er ungur Hafnfirðingur sem telst með þeim efnilegri sem við eigum. Haukur kemur úr hinum efnilega 91 árgangi og spilar með Haukum. Þegar ég þjálfaði 91 árganginn hjá Fjölni fyrir nokkrum árum og spilaði oft og títt gegn Haukum þá var Haukur leikmaður sem maður hafði ekki miklar áhyggjur af. Hann var svona duglegur ruslakarl sem guslaðist í kringum körfuna. Í dag hefur hann svokallaðann stjörnu potential. Er orðinn beittur sóknarmaður sem getur skorað grimmt. Er kominn með fína hæð fyrir framherja og er mikill íþróttamaður sem treður með látum. Er með deadly 3ja stiga skot sem vörn andstæðingana þarf að taka alvarlega þegar hann stígur inn fyrir miðlínuna. Varnarlega er erfitt að átta sig á honum. Hann er með betri svæðisvarnarmönnum sem ég hef haft í unglingalandsliðunum í gegnum tíðina en kæmist ekki á topp 50 yfir bestu maður á mann varnarmenn sem ég hef haft. Haukur þarf að bæta á sig kjöti á næstu árum en í dag er hann eins og ódýr tannþráður í laginu. Það er vonandi að hann verði duglegur að narta í lóðin í framtíðinni og styrki sig. Þá getur hann orðið ansi öflugur með þann hraða og stökkkraft sem hann hefur nú þegar. Það er líka lykilatriði fyrir Hauk að fá góðan mann með sér til að læra réttu tökin. Spurning hvort Helgi Jónas Guðfinnsson verði ekki bara hans besti vinur næstu árin. Man þegar ég fékk Marvin Valdimarsson til mín í Fjölni fyrir þremur eða fjórum árum en þá hafði Marvin aðeins farið tvisvar (2) í lyftingasal á ævinni. Meira að segja í annað sinn var hann bara að leita af félaga sínum og var því farinn út 20 sekúndum seinna þegar hann sá að félaginn var ekki þar inni. Það sama má alls ekki verða tilfellið með Hauk.

Fréttir
- Auglýsing -