spot_img
HomeFréttirJón Halldór: Markmiðin hafa ekki breyst ? fáránlegt fyrirkomulag!

Jón Halldór: Markmiðin hafa ekki breyst ? fáránlegt fyrirkomulag!

22:29
{mosimage}

(Jón ásamt fyrirliða sínum Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur)

Þjálfari margfaldra meistara Keflavíkur, Jón Halldór Eðvaldsson, sagði að áherslur Keflavíkurliðsins hefðu ekkert breyst þó erlendir leikmenn hafi horfið í kippum burt úr deildinni. Hann segir Keflvíkinga ætla sér að verja Íslandsmeistaratitilinn og er fjarri því sáttur við nýtt keppnisfyrirkomulag í kvennaboltanum sem kynnt var í dag. Jón segir fyrirkomulagið fáránlegt og skilur ekki af hverju breyta þurfi einhverju sem sé í lagi.

Þið í Keflavík verjið titilinn samkvæmt spánni en er nokkuð hægt að hengja sig á hana?
Já það er klárt, við verjum titilinn en gerir maður það einhvern tíman, að hengja sig á spánna? Ef þetta hefði verið Völvan sem hefði spáð þessu þá hefði ég bara fagnað strax.

Allir eru nú að horfa fram á breytt landslag í boltanum. Hvernig blasir ástandið við þér?
Okkar markmið hafa ekkert breyst. Rétt eins og önnur lið í deildinni þurfum við að aðlagast breyttum aðstæðum. Við erum kokhraustar og höldum okkar markmiðum.

Hvað finnst þér um nýja keppnisfyrirkomulagið í Iceland Express deild kvenna?
Mér finnst það bara fáránlegt! Ég skil ekki hverjum datt í hug að samþykkja þetta því það er bara verið að kópera handboltann og það sem þeir gerðu fyrir nokkrum árum síðan. Hvað gerði það fyrir handboltann? Þetta reið honum næstum því að fullu. Mér finnst þetta algerlega út úr kortinu í því augnamiði að fjölga leikjunum um einhverja 4-5 leiki. Þetta finnst mér fáránlegt og ég er ósáttur við þetta fyrirkomulag.

Hefur þú heyrt að aðrir í þinni stétt séu ósáttir við þetta nýja keppnisfyrirkomulag?
Ætli ég sé ekki einn um það eins og í svo mörgu öðru! En þetta er bara körfubolti og ef við ætlum að vinna titilinn verðum við að vinna okkar leiki. Við vorum með sjö lið í fyrra en átta lið núna. Það fannst öllum gaman í fyrra og hvers vegna þá að breyta einhverju sem er í lagi? Það hef ég aldrei skilið. Ég legg það bara fyrir á næsta ársþingi að menn breyti þessu til baka. Ef þetta virkaði ekki fyrir handboltann þá virkar þetta ekki fyrir okkur. Körfuboltinn er búinn að vera í sókn síðustu 3-4 ár út af því að fyrirkomulagið í körfubolta er skemmtilegt. Það er spiluð deildarkeppni og svo er spiluð úrslitakeppni. Ein af þremur vinsælustu íþróttagreinum Bandaríkjanna er körfubolti, af hverju er það? Deilarkeppni og svo er úrslitakeppni, það er svarið. Þú átt ekki að vera að skipta deildinni upp… ég á ekki til orð.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -