23:52
{mosimage}
(Kristrún Sigurjónsdóttir setti 20 stig fyrir Hauka í kvöld)
Frumkvæðið var ávallt Haukamegin í Röstinni í kvöld þegar gestirnir úr Hafnarfirði lögðu bikarmeistara Grindavíkur 58-66. Ragna Margrét Brynjarsdóttir fór á kostum í liði Hauka með 22 stig og 16 fráköst. Eftir sigurinn í kvöld eru Haukar komnir í toppsætið með Hamri sem lá gegn Keflavík í Hveragerði í kvöld.
Haukarnir voru sterkari í upphafi leiks og náðu 2-9 byrjun þar sem Grindvíkingar voru í miklum vandræðum í frákastabaráttunni og gerðu þá reginskyssu að stíga gesti sína ekki nægilega vel út í teignum. Vörn Grindavíkur var oft og tíðum galopin og því leiddu gestirnir 16-20 eftir fyrsta leikhluta.
Annar leikhluti einkenndist af mikilli baráttu þar sem hæðarmunurinn á liðunum kom oft bersýnilega í ljós. Ragna Margrét drottnaði í teignum og leiddu Haukar með 9 stiga mun í hálfleik, 29-38. Íris Sverrisdóttir var með 8 stig í liði Grindavíkur í hálfleik en Ragna Margrét með 16 og Kristrún Sigurjónsdóttir með 14 hjá Haukum.
Grindvíkingar náðu að saxa á forskot gestanna í síðari hálfleik og í stöðunni 42-46 tókst Haukum að nýju að rífa sig frá gulum og staðan 42-51 fyrir fjórða leikhluta. Aftur í fjórða leikhluta náðu heimakonur að minnka muninn í 4 stig en lengra komust þær ekki og góður Haukasigur var í raun lítið í hættu í kvöld. Haukar höfðu frumkvæðið allan leikinn og náðu Grindvíkingar sér ekki á flug gegn sterkri vörn gestanna. Lokatölur 58-66 eins og fyrr greinir og Haukar komnir á toppinn með Hamri.
Ragna Margrét Brynjarsdóttir leiddi Haukana í kvöld ásamt Kristrúnu Sigurjónsdóttur. Ragna með 22 stig, 16 fráköst og 1 stoðsendingu. Kristrún var með 20 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Petrúnella Skúladóttir var með 12 stig fyrir Grindavík og tók auk þess 4 fráköst.
Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0zNjk=
Texti: Alma Rut Garðarsdóttir
Myndir: Þorsteinn G. Kristjánsson – www.saltytour.com
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}