11:20:00
Það er ekki uppgjafatón fyrir að fara hjá LA Lakers þrátt fyrir að hafa tapað sínum fyrsta leik í vetur, því þeir unnu Chicago Bulls afar sannfærandi í nótt þar sem Spánverjinn Pau Gasol fór hamförum. Hann skoraði 24 stig í fyrri hálfleik og kláraði með 34 stig, hans besta stigaskor á tímabilinu, en Kobe Bryant kom honum næstur með 21 stig og Andrew Bynum var með 18 stig.
Hjá Chicago var nýliðinn Derrick Rose enn í góðum málum og gerði 29 stig og gaf 9 stoðsendingar. Ben Gordon bætti við 23 stigum.
Lakers hafa þá unnið átta og tapað einum, en Chicago hefur unnið fimm og tapað 6.
Fjölmargir aðrir leikir fóru fram í nótt og fylgja úrslit hér að neðan:
Boston er enn á beinu brautinni og stóðu af sér harða sókn NY Knicks þrátt fyrir að Kevin Garnett hafi verið í banni fyrir að slá til Andrews Bogut í leik um helgina. Boston, sem lék á heimavelli, leiddi í hálfleik gegn Knicks og virtist ætla að sigra örugglega, en gestirnir gengu smátt og smátt á forskotið í lokaleikhlutanum áður en meistararnir gerðu út um leikinn og sigruðu 110-101.
Paul Pierce var stigahæstur Boston-manna með 22 stig, en Wilson Chandler var með 23 stig fyrir Knicks.
Þá átti Dirk Nowitzki enn einn stórleikinn fyrir Dallas Mavericks í útisigri á Charlotte Bobcats, 100-83. Hann gerði 32 stig og hefur nú leitt sína menn aftur á beinu brautina eftir hryllilega byrjun á tímabilinu.
Atlanta Hawks, sem komu öllum á óvart með því að sigra í fyrstu 6 leikjum vetrarins, töpuðu fyrir Indiana Pacers í nótt, 113-96, og hafa því tapað fjórum leikjum í röð.
Joe Johnson stóð fyrir sínu hjá Atlanta með 25 stig, en nýjasta stjarna Pacers, Danny Granger, bætti um betur og var með 34 stig. Það var hins vegar varnarleikurinn sem brást hjá Atlanta, en Pacers nýttu sóknir sínar afar vel.
Loks er ekki hægt að láta hjá líða að Greg Oden átti stórgóðan leik fyrir Portland gegn Golden State í nótt. Hann gerði 22 stig af bekknum og tók 10 fráköst, en það nægði ekki til sigurs þar sem Golden State með Stephen Jackson og Anthony Morrow í fararbroddi voru sterkari á endasprettinum og fögnuðu sigri, 111-106 í leikslok.
Athyglisvert er að bera saman þá Oden og Morrow. Báðir eru þeir nýliðar og virðast eiga bjarta framtíð fyrir sér en fátt annað er líkt með þeim. Morrow er bakvörður, frábær skytta en fáir bjuggust við miklu af honum og var hann ekki einu sinni valinn í nýliðavalinu. Fáir hafa hins vegar verið hafnir meira upp til skýjanna en Greg Oden, stór og mikill miðherji sem var valinn fyrstur í valinu í fyrra. Verður fróðlegt að sjá hvernig þeim reiðir af í vetur.
Hér fylgja úrslit næturinnar:
Toronto 90
Orlando 103
Atlanta 96
Indiana 113
Dallas 100
Charlotte 83
Miami 94
Washington 87
New York 101
Boston 110
Cleveland 106
New Jersey 82
Sacramento 94
Memphis 109
Milwaukee 105
Denver 114
Chicago 109
LA Lakers 116
Portland 106
Golden State 111
ÞJ