10:42
{mosimage}
(Helena í góðum gír með liðsfélögum sínum í TCU)
Texas Christian University hefur ekki tapað leik á undirbúningstímabilinu í bandarísku háskóladeildinni í kvennakörfubolta. Þar fer Helena Sverrisdóttir fremst í flokki en fyrir þessa leiktíð var hún gerð að fyrirliða liðsins. Helena fór á kostum sem nýliði hjá TCU á síðustu leiktíð og hefur nú fengið stærra og veigameira hlutverk innan liðsins. Helena er byrjunarleikstjórnandi þannig að leikur TCU snýst mikið í kringum hennar störf. Helena sagði í samtali við Karfan.is að TCU ætlaði sér lengra en í fyrra og stefnt væri að sigur í Mountain West riðlinum þar sem TCU leikur. Helena verður í brennidepli í nótt þegar TCU mætir Houston háskólanum í sjötta leik liðsins á tímabilinu. Þar með lýkur langri heimaleikjahrynu TCU sem halda síðan til Mexíkó á stutt mót og að því loknu er förinni heitið til Kaliforníu.
Nú ertu á þínu öðru ári með TCU. Hefur þú fengið meiri ábyrgð innan liðsins eftir að hafa átt svona gott nýliðaár í fyrra?
Já, algjörlega. Liðið í ár er allt annað heldur en í fyrra. Af 5 senior-um í fyrra, voru 4 þeirra með mjög stórt hlutverk, og 2 þeirra svona mestu skorararnir í liðinu. Í ár, hef ég fengið MUN stærra hlutverk, ég er fyrirliðinn, og því ekki bara á vellinum sem ég þarf að vera leiðtogi, heldur utan vallar líka. En það er það sem mér finnst skemmtilegast, að fá að vera leiðtogi í liðinu sem ég er í, og reyna að hjálpa stelpunum í kringum mig til að verða enn betri.
Ert þú fyrsti leikstjórnandi?
Já, ég hef byrjað alla leikina sem leikstjórnandi, við erum með einn annan point, en hún er freshman (nýliði) og á enn margt til að læra, en er mjög efnileg.
Hvernig líkar þér í leikstjórnendastöðunni eða er einhver önnur staða innan liðsins sem þér þykir betra að spila?
Ég hef alltaf spilað point, en þó að ég komi upp með boltann er ég að skora mikið inní líka. Við erum með nokkur kerfi sem koma mér niður á blokkina, og svo erum við að spila “motion” (frjálsa) sókn, þar sem ég dett mikið niðrá kantinn eða inní teig. Það er oft voða þægilegt að fá bara að hlaupa fjarkann, þá þarf maður ekki að hafa of miklar áhyggjur. En mér finnst gott að hafa boltann í mínum höndum, og því hef ég ekkert á móti að spila pointinn.
Þið hafið verið sjóðheitar í þessum æfingaleikjum á heimavelli og unnuð Marylandskólann um daginn. Gerið þið sjálfar kröfur um betra gengi í ár en í fyrra?
Já og nei. Við erum núna 4-0, en höfum verið að spila við frekar slakari lið, þá frátalið Maryland. Eftir að sigra Maryland í frábærum leik, höfum við svona flotið í gegnum hin liðin, ekki spilað nægilega vel. Það er oft erfitt að spila mjög vel gegn slakari liðum, og við dettum stundum niður á þeirra plan. Þjálfarinn okkar hefur því ekki verið neitt ofur sáttur með okkur, skiljanlega. En við reynum að koma inn á hverjum degi og verða betri, og við verðum bara að halda því áfram því við eigum mun sterkari leiki framundan.
Hvað teljið þið raunhæfar kröfur? Sweet Sixteen í NCAA eða jafnvel lengra?
Við bjuggum okkur til markmiðaskrá í byrjun. Svona það sem við erum mest að hugsa um núna, er að vinna okkar conferene sem hefst eftir áramót. Það gefur okkur sjálfkrafa leið inní NCAA en við komumst ekki inn í fyrra, þannig stærsta markmiðið er að komast inn í ár. Okkur langar öllum í hring (en það er ameríski gullpeningurinn) og Mountain West title er það sem okkur langar mest í!
Framundan er ferð til Mexíkó, er það lokahnykkurinn í undirbúningstímabilinu?
Nei, við erum bara rétt nýbyrjaðar að spila. Þegar við erum búnar að keppa í Mexico, komum við heim í einn dag, og höldum svo til Californiu, þar sem við keppum fyrst stakan leik við Fresno State, en síðan tökum við þátt í örðu móti þar. Keppum meðal annars við, Californiu en það er top 10 lið. Svo í Desember, eigum við 2 stóra leiki, gegn nr. 13 Oklahoma State, og svo top 10 Texas A&M. Eins og staðan er í dag, erum við nr 24 í nation, en við komumst ekki inná þann lista í fyrra. Því betur sem okkur gengur núna á “undirbúningstímabilinu” því hærra gætum við verið rankaðar (en sá listi er uppfærður vikulega), og því meiri möguleika eigum við á að komast inní NCAA.
{mosimage}
Hvernig gengur námið. Hvað ertu að læra og hvernig gengur að sameina þetta við svona þétta körfuboltadagskrá?
Námið gengur fínt. Það er oft erfitt að missa svona mikið úr skóla, þegar við ferðumst mikið. En langflestir kennararnir skilja þetta, og við fáum að taka próf seinna, og skila verkefnum seinna, þannig þetta er ekkert of slæmt. Þeir sem þjást mest eru kannski hópfélagar manns, en mikið af náminu krefst hópavinnu, og við íþróttamennirnir, erum alltaf á æfingum eða að keppa, þannig það er erfitt fyrir okkur að hitta fólkið í hópunum til að klára verkefni saman. Annars var ég loksins að ákveða hvaða gráðu ég ætla að klára, en ég mun útskrifast með B.S í Communications major og verð með History minor.
Er kreppan eitthvað að plaga þig?
Já að sjálfsögðu, enda getur maður ekki skroppið útí búð og margfaldað með 65, heldur hefur það tvöfaldast. En ég reyni bara að pæla lítið í því, enda er NÓG annað að gera, ég bara reyni að fækka ferðum í mall-in..;)
Hvaða þætti hefur þú persónulega verið að bæta í þínum leik og hvar finnst þér þú vera stödd sem leikmaður?
Góð spurning, því ég hef mikið pælt í þessu sjálf. Þjálfarinn minn hérna úti, hefur sett mikla pressu á mig, og ég veit að ég get staðist hana. En til þess að standast þessa pressu, þá er margt sem ég þarf að gera. Það sem mér finnst ég þurfa að gera núna, er að vera meira ákveðin að gera hlutina, þ.e. ekki að vera að pæla of mikið, heldur bara spila körfubolta. Uppá síðkastið(bæði í sumar með landsliðinu og svo núna hérna) hef ég fundið hvað andlegi þátturinn er gífurlega mikilvægur, og ég hef verið að reyna að vinna að því svoldið mikið, að vera sem besti leiðtogi og ég get orðið. Það er ákveðið mikið sem þú getur pælt í fyrir sjálfan þig, en til að vera góður leiðtogi þarf maður að pæla í hlutum fyrir liðsfélagana líka, og mér finnst ég hafa náð að bæta mig þar. Það er alltaf svo mikið pláss til að bæta sig, og mitt markmið þessa stundina, er að koma inná hverja æfingu, hvern video-fund, hvern leik til þess að verða betri, þetta er ekki þess virði ef maður ætlar bara að sitja í sama farinu.
Ertu eitthvað byrjuð að tala fyrir því að TCU taki inn fleiri íslenskar stelpur? Eru stelpur hér heima sem ættu erindi í efstu deild háskólaboltans í USA?
Þjálfararnir hérna eru oft að spyrja mig hvort það séu íslenskar stelpur sem eru nógu góðar til að koma út. Mittie, aðal þjálfarinn minn fór til Íslands fyrir um mánuði síðan, og var að skoða nokkrar stelpur sem ég hafði bent honum á, hann fór síðan til Danmerkur að skoða fleiri leikmenn, og á næsta ári kemur ein stelpa þaðan. Við erum með mjög sterkt program hérna hjá TCU, og það er ekki bara nóg að vera góður í körfu, heldur er leitað mikið eftir persónulegum þáttum líka, og svo þurfa einkunnirnar að vera góðar. En í efstu deild hérna úti eru 330 skólar, missterkir að sjálfsögðu. Og ég er algjörlega á því, að það séu fullt af íslenskum stelpum sem geta farið út í skóla. Það er smá ‘vesen’, maður þarf að fara í gegnum prófatökur, og fullt af pappírsvinnu, en ég get lofað ykkur því að þetta er algjörlega þess virði. Að vera student-athlete hérna, er eins og vera ofdekraður krakki. Þeir borga skólann fyrir þig, gefa þér peninga til að lifa, þvo þvottinn þinn, redda fötum og skóm, þannig “eina” sem maður þarf að pæla í, er að standa sig í skólanum og mæta á allar æfingar og leggja sig 150% fram.
Myndir af blogsíðu Helenu: http://helena-4.blogcentral.is/