08:00
{mosimage}
(Bræður berjast í Ljónagryfjunni í kvöld)
Bræðurnir Sigurður og Valur Ingimundarsynir mætast í kvöld í fyrsta sinn sem þjálfarar Njarðvíkur og Keflavíkur þegar þessir fornu fjendur etja kappi í Ljónagryfjunni. Sigurður er landsliðsþjálfari og einn sá reyndasti í bransanum en Valur er einhver besti leikmaður landsins fyrr og síðar en hefur einnig sannað sig sem þjálfari í efstu deild. Oft hafa þessi tvö lið úr Reykjanesbæ verið sigurstranglegri í deildinni en þetta tímabilið en að því er ekki að spyrja þegar svona nágrannarimmur dúkka upp.
Eins og sakir standa eru Keflvíkingar í 4. sæti með 10 stig en Njarðvíkingar eru í 6. sæti með 8 stig og geta með sigri í kvöld jafnað granna sína að stigum.
,,Ég man ekkert eftir leik Njarðvíkur gegn KR, það er svo langt síðan. Svo er ekki heldur langt síðan Keflavík tapaði gegn Breiðablik með 20 stigum,“ svaraði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur þegar Karfan.is spurði hann hvort Njarðvíkingar yrðu ekki léttafgreiddir í kvöld eftir risatap gegn KR í síðustu umferð.
,,Við tengjum þetta ekkert saman við fyrri leiki, Njarðvík-Keflavík eru sérstakir leikir og í þeim er mesta fjörið og allir á tánum í báðum liðum,“ sagði Sigurður sem áfram verður að sætta sig við fjarveru Þrastar Leós Jóhannssonar sem verið hefur meiddur undanfarið en aðrir leikmenn liðsins eru klárir í verkefnið.
,,Mér finnst við hafa verið sprækir undanfarið en vorum ekki stöðugir í byrjun, við erum ekki eins góðir núna og við munum verða,“ sagði Sigurður sem er sáttur við framlag sinna ungu leikmanna. ,,Heilt yfir hefur þetta bara verið ágætt hjá okkur og það er spenna í bænum sem endranær. Núna er akkúrat tími fyrir alla til þess að fara og horfa á körfubolta, það er í kvöld og það gæti ekki verið betri tími fyrir þennan leik,“ sagði Sigurður og rétt eins og bróðir sinn segir Valur þjálfari Njarðvíkinga að títtræddur KR-leikur hafi ekki brotið sína menn.
,,KR-leikurinn er kominn úr kerfinu hjá mínum mönnum og í þeim leik vorum við bara lélegir og gáfumst upp snemma í leiknum. Ég hef sagt það frá byrjun að allir sigrar okkar séu stórsigrar og ef við náum að leggja Keflavík í kvöld þá er það bara frábært hjá okkur,“ sagði Valur en Njarðvíkingar hafa verið að glíma við meiðslavandræði í sínum herbúðum.
,,Það er búið að vera töluvert um veikindi og meiðsli en ég held að það verði allir með í kvöld. Ég vona að Frikki (Friðrik Stefánsson) verði klár því hann er búinn að vera í læknismeðferð og hefur ekki mátt æfa fram að leik,“ sagði Valur en að þessu sinni var það ekki hjartað sem var að hrjá Friðrik eins og áður heldur hefur hann verið að glíma við meiðsli í baki og hné.
Aðspurður hvor Valur og Sigurður bróðir hans hefðu mikið rætt saman um grannaslaginn í kvöld svaraði Valur: ,,Við ræðum ekki körfubolta yfir höfuð! Við ræðum ekki um okkar lið og þetta verður allt í mesta bróðerni. Keppnin hjá mér er á meðan leik stendur, hvorki fyrir né eftir leikinn heldur eyði ég allri orkunni minni í leikinn sjálfan,“ sagði Valur og bætti við að von væri á körfuboltaveislu í kvöld.
,,Við bíðum bara spenntir eftir leiknum og það er ekki leiðinlegt að hafa Magnús Þór Gunnarsson með okkur í kvöld gegn Keflavík og við vitum að hann fær góðan stuðning úr stúkunni, allavega frá Njarðvíkingum,“ sagði Valur léttur í bragði.