10:23:07
Miðherjinn Vlade Divac er mörgum minnistæður sem einn af brautryðjendunum fyrir erlenda leikmenn í NBA-deildinni. Hann verður heiðraður af Sacramento Kings á næsta ári þegar treyjan hans, nr. 21, verður dregin upp í rjáfur í Arco Arena höllinni í Sacramento og verður þar með fyrsti Serbinn til að verða þess heiðurs aðnjótandi.
Nánar hér að neðan:
Divac lék lengst af með LA Lakers, en var skipt til Charlotte Hornets ásamt Eddie Jones fyrir ungan og efnilegan bakvörð, Kobe Bryant að nafni, árið 1996.
Eftir tveggja ára vist í Charlotte lá leið hans til Sacramento þar sem hann átti sinn þátt í endurreisn liðsins sem háði marga hildi við hans gömlu félaga í Lakers á árunum 2000 til 2004.
Hann var annálaður fyrir að fáir miðherjar voru eins glúrnir við að finna samherja sína, en á síðasta fulla tímabili sínu var hann t.d. með 5.3 stoðsendingar í leik.
Divac sneri aftur á fornar slóðir þegar hann samdi við Lakers fyrir tímabilið 2004-2005, en lék aðeins 15 leiki og lét gott heita, 36 ára að aldri. Hann hefur síðan unnið ötullega að uppbyggingu íþrótta, sérstaklega körfuknattleiks, í Serbíu en verður alltaf minnst sem hetju í Sacramento fyrir að hafa átt þátt í að draga liðið upp úr öskustó NBA-deildarinnar.
Hyllingin fer fram 31. mars þegar Kings mæta New Orleans.
Ferill Vlade Divac
Heimild: talkbasket.net
ÞJ