21:11
{mosimage}
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál
Í síðustu viku sagði ég frá þeirri tómstundaiðju dómara að leysa flókin regluvandamál. Dómarar kalla þau “keis”. Ég gerði tilraun með því að biðja lesendur körfunnar að taka þátt í lítilli getraun með því að leysa raunverulegt vandamál sem upp kom í leik UMFN og Þórs í Subway bikarnum á dögunum.
Keisið er svona:
• Cedric Isom leikmaður Þórs reyndi 3ja stiga stökkskot undir lok annars fjórðungs (ca. 0,1 – 0,2 sek fyrir lok hans)
• Varnarmaður frá Njarðvík reyndi að verja skot hans en tókst það ekki
• Boltinn hafði sannarlega yfirgefið hendi skotmanns þegar klukkan hringdi til merkis um lok leikhlutans
• Boltinn og sóknarleikmaðurinn voru í loftinu þegar klukkan hringdi
• Áður en Isom lenti á gólfinu aftur, lenti varnarmaðurinn á honum á þann hátt að undir venjulegum kringumstæðum væri dæmd persónuvilla á varnarleikmanninn. Þetta gerðist 0,2 – 0,3 sek eftir að leiktímanum lauk.
• Boltinn hitti hringinn en fór ekki ofaní
Allt þetta gerðist á ca. ½ sekúndu, en körfuknattleikur er afar nákvæm íþrótt og hvert sekúndubrot mikilvægt.
Lausn:
Það eru nokkur grundvallaratriði sem skipta verulegu máli fyrir lausn þessa máls:
1) Leikmaður sem reynir stökkskot telst skotmaður þangað til hann er lentur á gólfinu aftur með báða fætur (grein 15.2)
2) Leikhluta er lokið þegar hljóðmerki leikklukku heyrist (grein 8.5)
3) Það er sérstaklega tekið fram að bolti á lofti eftir skottilraun eigi rétt á að fara í körfuna jafnvel þó merki um lok leikhluta hljómi í loftinu (grein 10.4). Ekki er minnst á að skotmaður á lofti eigi rétt á lending eftir að leikhluta er lokið.
4) Það er ekki eðlilegt að leikmaður brjóti af sér eftir að leikhluta lýkur, því skal líta framahjá atvikum sem teljast minniháttar, t.d. ef einn leikmaður rekst á annan í hurðinni á leið til búningsherbergja. Séu atvik sem eiga sér stað á milli leikhluta alvarleg er heimilt að dæma óíþróttamannslega villu, tæknivillu eða brottrekstrarvillu.
Þetta skilur eftir tvær spurningar:
a) Hvort vegur þyngra, réttur skotmannsins til lendingar, eða lok leikhlutans?
Svar: Að mínu mati er þetta eins og ökumaður sem kemur að umferðarljósum sem sýna rautt en lögreglumaður sem stendur á gatnamótunum gefur bending um að ökumaðurinn eigi að halda áfram. Lok leikhlutans vegur þyngra. Ímyndum okkur að þetta hafi gerst í lok 4 leikhluta og staðan hafi verið jöfn. Áttu þá úrslitin að ráðast á atviki sem geriðst eftir að leiktíma lauk?
b) Var brotið þess eðlis að það væri “minniháttar” eða þarfnaðist það óíþróttamannslegrar villu?
Svar:
Það var engin leið fyrir varnarmanninn að gera sér grein fyrir að brot hans yrði utan leiktímans og því ekki um óeðlilegt, né sérstaklega harkalegt atvik að ræða. Það var því ekki í stöðunni að dæma venjulega villu, óíþróttamannsleg villa var þetta ekki svo að “no-call” var besta í stöðunni.
Niðurstaða:
Ég get skilið svekkelsi Hrafns þjálfara á þessarri stundu, því inní miðjum leik var þetta alltaf villa á varnarmanninn. Ég verð hins vegar að hrósa Rögnvaldi og Jóni fyrir hárrétta ákvörðun að dæma ekki brot og eru þeir útskrifaðir með hæstu einkunn!
Getraunin:
Ég fékk nokkur svör, vildu allir nema einn að Isom fengi þrjú skot og bentu gjarnan á grein 15.2 máli sínu til stuðnings. Aðeins einn þátttakandi vildi styðja ákvörðun dómaranna og er það Páll Jónsson stuðningsmaður Þórs nr. 1 Varðandi rökstuðning þá var hann ekkert að flækja sig í reglunum heldur sagði: “það er alltaf dómur dómara á velli sem gildir”. Það er auðvitað hverju orði sannara, og hef ég heitið Palla því að herma þetta uppá hann næst þegar hann verður með mótbárur fyrir norðan : )
Ég vil þakka þeim sem tóku þátt og Páli munu berast verðlaun fyrir vorið!
Sendi öllu körfuboltafólki bestu óskir um farælt komandi ár.
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari