08:24:30
Kevin Durant frá Oklahoma City Thunder var lykilmaðurinn í liði annars árs leikmanna sem lögu nýliðana í hinum árlega nýliðaleik Stjörnuhelgarinnar, 122-116, í nótt. Durant skoraði 46 stig, sem er met í nýliðaleiknum, en æskuvinur hans Michael Beasley frá Miami var stigahæstur nýliðanna með 29 stig.
Eins og venjulega var leikurinn á léttu nótunum, en öllu gamni fylgir nokkur alvara og sagði Beasley fyrir leikinn: „Það er ekki töff að tapa. Ég vil vera töff gaurinn og þeir tapa ekki. Ég ætla mér að spila af krafti.“
Hann verður því miður að sætta sig við hlutverk taparans þetta árið, en fær tækifæri á næsta ári til að kvitta fyrir það.
Í gær fór einnig fram stjörnuleikur fræga fólksins þar sem gamlar NBA hetjur komu saman ásamt nokkrum leikmönnum Harlem Globetrotters í bland við fleiri valinkunna einstaklinga.
Maður leiksins annað árið í röð var ruðningshetjan Terrell Owens sem fór á kostum með 17 stig, þar á meðal nokkrar eftirminnilegar troðslur. Í hópi goðsagnanna voru menn eins og Clyde Drexler, Dominique Wilkins og Dan Majerle sem sýndo nokkur góð tilþrif, þó þeir séu að sjálfsögðu ekki eins fráir á fæti og þeir voru á sínum sokkabandsárum.
Í kvöld fara svo fram Troðslukeppnin og 3ja stiga keppnin og verður fróðlegt að sjá hvaða trikk troðslukóngarnir mæta með í keppnina og einnig hvort Jason Kapono nái að vinna 3ja stiga keppnina í þriðja skiptið í röð.
Á morgun er svo komið að stóru stundinni, eða Stjörnuleiknum sjálfum.
Lítið inn á www.nba.com til að sjá tilþrif úr leikjunum.
ÞJ