14:23
{mosimage}
(Ari Gunnarsson)
Hamarskonum leiddist ekki að Ásvöllum í gærkvöldi þegar þær unnu sinn fyrsta sigur á Haukum í sögu kvennakörfunnar í Hveragerði. Tilraunirnar síðustu ár hafa verið ansi margar en ísinn var brotinn í gær í 54-61 sigri Hamars í Hafnarfirði. Karfan.is náði í skottið á Ara Gunnarssyni þjálfara Hamars sem sagði að það hefði ávallt verið að styttast í þennan sigur Hamars á Haukum.
Fyrsti sigur Hamars gegn Haukum í sögu kvennakörfuboltans í Hveragerði er kominn í hús. Var þetta sálfræðilegur hjallur sem þið komust yfir í Hafnarfirði?
Já ég er stoltur af stelpunum, þær börðust eins og ljón og gerðu þetta saman sem lið. Þetta er klárlega sálfræðilegur sigur og sýnir stelpunum að það sé hægt að vinna þessi stóru nöfn í þessari deild og svo var alltaf að styttast í sigur á Haukum, það hlaut að koma að því 🙂
Þá var þetta fyrsti sigurinn á nýja árinu, eru þið í Hamri að ná viðlíka skriði og þið voruð á í upphafi deildarkeppninnar?
Þessi sigur var kærkominn fyrir liðið, það er alltaf erfitt andlega að tapa mörgum leikjum í röð en þetta var eitthvað sem gat gerst þegar deildinni var skipt þá voru allir leikir erfiðir og gátu farið á hvorn veginn sem er og okkar hlutskipi var að tapa þar til að við rifum okkur upp á rassgatinu og unnum góðan sigur á toppliði Hauka.
Nú er hreinn úrslitaleikur um 3. sætið í riðilinum gegn KR á miðvikudag. Hvernig líst þér á þann leik?
Mér líst vel á þennan leik og alltaf gaman að spila svona leiki og ég vona að mínar stelpur mæti og hafi gaman að því að spila körfubolta, þá hef ég ekki áhyggjur.
Þá er nokkuð ljóst að þið mætið Val eða Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, hvort liðið telur þú að henti Hamri betur?
Það er erfitt að svara þessari spurningu, nú er Valur komin með erlendan leikmann og ég hef ekkert séð þær spila í langan tíma og það er sama með Grindavík en það hafa verið hörku leikir á milli okkar og Grindavíkur í vetur og það væri gaman að endurtaka það 🙂
Annars er okkur sama hvort liðið það verður 🙂