13:43
{mosimage}
Valur Orri Valsson opnaði leikinn fyrir Njarðvíkinga með þriggja stiga körfu og Martin Hermannsson gerði slíkt hið sama fyrir KR svo leikurinn fór vel af stað. Njarðvíkingar náðu þó fljótlega yfirhöndinni og komust í 14-9 en KR lét ekki deigan síga og minnkuðu muninn í 2 stig og stóðu leikar 20-18 fyrir Njarðvík að loknum fyrsta leikhluta.
Njarðvíkingar létu sér vel líka svæðisvörnin sem KR lék gegn þeim í öðrum leikhluta og náðu að byggja upp gott forskot þar sem þeir Oddur Birnir Pétursson og Maciej Baginski reyndust KR-ingum erfiðir í teignum. Hafsteinn Sveinsson kom Njarðvík svo í 36-22 með þriggja stiga körfu og Valur Orri Valsson var KR-ingum illur viðureignar með 12 stig í fyrri hálfleik. KR átti góða rispu undir lok leikhlutans með tveimur mikilvægum þriggja stiga körfum sem minnkuðu muninn í 37-28 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Kormákur Arthursson var stigahæstur í liði KR í hálfleik með 10 stig.
Vesturbæingar voru líflegir í upphafi síðari hálfleiks og með fimm stigum í röð frá Matthíasi Orra Sigurðssyni náðu KR-ingar að minnka muninn í 37-35 en þá sögðu Njarðvíkingar hingað og ekki lengria. Valur Orri Valsson fór fyrir miklu áhlaupi Njarðvíkinga og smellti niður þrist og breytti stöðunni í 50-37. Það var svo Maciej Baginski sem gerði flautuþrist fyrir grænklædda sem leiddu 56-39 að loknum þriðja leikhluta og staðan orðin ansi vænleg hjá Njarðvíkingum.
{mosimage}
Eftirleikurinn hjá Njarðvík var nokkuð auðveldur og bættu grænir í muninn og unnu að lokum nokkuð sannfærandi sigur á KR 77-53. Valur Orri Valsson var stigahæstur í Njarðvíkurliðinu með 20 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar og var fyrir vikið valinn besti maður leiksins en honum næstur var Oddur Birnir Pétursson með 17 stig og 11 fráköst. Hjá KR var Matthías Orri Sigurðsson með 19 stig og 3 stoðsendingar og Martin Hermannsson var með 11 stig og 5 fráköst.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}