12:00
{mosimage}
(Hlynur og Hólmarar hafa unnið síðustu fimm deildarleiki í röð)
Í kvöld hefst 21. umferð Iceland Express deildar karla. Þrír leikir eru í kvöld sem allir hefjast kl. 19:15. Njarðvík fær Breiðablik í heimsókn, Þór Akureyri tekur á móti ÍR og Subwaybikarmeistarar Stjörnunnar taka á móti Snæfellingum. Í Grindavík geta svo Subwaybikarmeistarar KR kvenna tryggt sig inn í undanúrslitin er þær mæta gulum í sinni annarri viðureign. KR vann fyrri leikinn í DHL-Höllinni á þriðjudag og leiða því einvígið 1-0. Leikur KR og Grindavíkur hefst kl. 19:15 í Röstinni.
Þar sem Þór mæti KR í Vesturbænum í síðustu umferð Iceland Express deildar karla er nokkuð óhætt að segja að Norðanmenn leggji ofuráherslu á sigur gegn ÍR í kvöld. ÍR þarf ekki að óttast um sæti sitt í úrvalsdeild eins og Þór en ÍR er í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en Þór hefur 12 stig í 11. sæti deildarinnar, 2 stigum á eftir FSu og Tindastól. Ef Þór vinnur í kvöld jafna þeir Stólana og FSu að stigum en bæði þessi lið leika á morgun, Tindastóll gegn Keflavík í Síkinu og FSu mætir Grindavík í Röstinni. Hvað sem verður í kvöld þá halda Þórsarar á morgun með Keflavík og Grindavík!
Breiðablik halaði inn tveimur mikilvægum stigum í síðustu umferð og eru nú í 7. sæti deildarinnar með 16 stig. Blikar halda í Ljónagryfjuna í kvöld og mæta Njarðvíkingum en tvíframlengja þurfti síðustu viðureign liðanna þar sem Njarðvíkingar höfðu betur í Smáranum. Nýliðar Breiðabliks hyggja því væntanlega á hefndir og skal það undrun sæta ef einhver Suðurnesjamaðurinn úr röðum Blika á ekki stórleik í kvöld. Njarðvíkingar fóru langt með að tryggja sér 5. sæti deildarinnar með sigri á Keflavík í síðustu umferð og berjast nú hart við granna sína úr Keflavík um 4. sætið og jafnframt heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni en nokkuð víst er að þessi lið eigi eftir að mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Enn einn stórleikurinn er hjá Stjörnumönnum í kvöld sem tapað hafa þremur deildarleikjum í röð eftir að hafa orðið Subwaybikarmeistarar. Síðan bikarinn fór á loft í Garðabæ hefur Stjarnan tapað fyrir KR, Keflavík og nú síðast fyrir Breiðablik og prógrammið hjá Garðbæingum er ekki auðvelt. Í kvöld fá þeir Snæfell í heimsókn í Ásgarð en Hólmarar eru sjóðheitir um þessar mundir og hafa unnið síðustu fimm deildarleiki sína í röð og eru öruggir með 3. sætið í deildinni þar sem þeir hafa betur innbyrðis gegn Keflavík.
Í Njarðvík verður boðið upp á tvíhöfða í kvöld því að loknum leik UMFN og Blika í karlaboltanum mætast Njarðvíkurkonur og Ármann í 1. deild kvenna en leikurinn hefst kl. 21:15 og eru Njarðvíkurkonur í óðaönn að berjast um sæti í Iceland Express deild kvenna á næstu leiktíð. Ef Ármann sigrar í kvöld eru liðin jöfn með 18 stig og þá verða 3 lið á toppnum, Njarðvík, Ármann og Keflavík B en Keflvíkingar geta reglum samkvæmt ekki farið upp um deild og því stendur baráttan á milli Ármenninga og Njarðvíkinga.
Fleiri leikir dagsins eru hér – http://www.kki.is/leikvarp.asp