16:55
{mosimage}
Nú höldum við áfram að velta fyrir okkur möguleikunum í tveimur síðustu umferðum Iceland Express deildar karla. Eins og kom fram í morgun er aðeins tvennt öruggt í stöðunni, Snæfell verður númer 3 og Skallagrímur númer 12.
Við vorum að velta fyrir okkur möguleikum ÍR þegar við stoppuðum í morgun. Þar eru fleiri möguleikar eftir, ef ÍR tapar báðum, Stjarnan vinnur einn, Breiðablik tapar báðum og Tindastóll og FSu vinna báða þá eru ÍR, Stjarnan, FSu og Tindastóll öll jöfn. Þá endar Stjarnan númer 6, ÍR númer 7, Tindastóll númer 8 og FSu númer 9.
Það sem getur líka gerst er að ÍR, Stjarnan og Breiðablik tapi báðum leikjum sínum og Tindastóll og FSu vinni báða. Þá eru ÍR, Tindastóll og FSu öll jöfn og þá endar ÍR númer 6, Tindastóll númer 7 og FSu númer 8. Ef annað hvort Tindastóll eða FSu tapar öðrum leiknum í þessu tilviki þá breytist röðin bara þannig að FSu kemst uppfyrir Tindastól ef það er Tindastóll sem tapar öðrum leiknum.
Í þessari upptalningu á möguleikum tengdum ÍR er búið að fara í gegnum flesta möguleika Breiðablik, Stjörnunnar, Tindastóls og FSu. Þeir leikir sem Breiðablik á eftir eru úti gegn Njarðvík og heima gegn Tindastól, Stjarnan á eftir að taka á móti Snæfelli og heimsækja FSu. Tindastóll á eftir að taka á móti Keflavík og heimsækja Breiðablik og FSu á eftir að heimsækja Grindavík og taka á móti Stjörnunni.
Þá eru það Þórsarar, þeir eiga eftir að taka á móti ÍR og heimsækja KR. Tapi Þór báðum leikjunum þá eru þeir fallnir. Vinni þeir báða og Breiðablik og Stjarnan tapa báðum, þá hafa Tindastóll og FSu allavega unnið einn leik og í því tilviki að Tindastóll og FSu hafa tapað hinum leiknum þá eru Breiðablik, Stjarnan, Tindastóll, FSu og Þór öll jöfn. Þá endar Tindastóll númer 7, FSu númer 8, Þór númer 9, Breiðablik númer 10 og Stjarnan fellur með Skallagrím. Vinni Þór báða, Stjarnan og Breiðablik tapa báðum og Tindastóll og FSu vinna báða þá verða Þór, Breiðablik og Stjarnan jöfn, þá verða Blikar númer 9, Þórsarar númer 10 og Stjarnan fellur. Vinni Þór báða og Breiðablik tapar báðum, Stjarnan vinnur Snæfell og Tindastóll og FSu vinna einn hvort þá eru Þór, Stjarnan, Tindastóll og FSu jöfn, þá endar Tindastóll númer 8, Stjarnan númer 9, Þór númer 10 og FSu fellur. Hinsvegar ef Þór vinnur báða, Stjarnan tapar báðu, Breiðablik vinnur Njarðvík og Tindastóll og FSu vinna einn hvort þá endar Tindastóll númer 8, Þór og FSu verða númer 9 og 10 og Blikar falla.
Ef Þór vinnur einn leik og Tindastóll og FSu tapa báðum þá verður Tindastóll númer 9, Þór númer 10 og FSu fellur. Vinni Þór einn leik og Tindastóll tapi báðum, en FSu vinni a.m.k. einn leik þá fellur Þór og Tindastóll verður númer 10, en fari svo að Þór vinni 1, FSu tapi báðum og Tindastóll vinni a.m.k. einn þá enda Þór og FSu jöfn, liðin unnu sitthvorn leikinn innbyrðis, báðir unnust með 10 stigum svo þá er það nettómismunur á stigaskori allra leikja vetrarins sem ráða úrslitum, FSu er með -24 í dag og Þór -87, það getur því skipt miklu máli hvernig leikir þeirra sem eftir eru fara og 74 stiga sigur Þórs á Skallagrím getur vegið þungt í lokin. Svo getur þetta líka farið þannig að Þór vinnur báða og Tindastóll og FSu tapa báðum, þá fellur FSu. Ef Þór vinnur báða og FSu tapar báðum en Tindastóll vinnur a.m.k. einn þá fellur FSu. Ef Þór vinnur báða og Tindastóll tapar báðum en FSu vinnur a.m.k. enn þá fellur Tindastóll.
Þau lið sem geta því fallið með Skallagrím eru Þór, FSu, Stjarnan, Tindastóll og Breiðablik.
Mynd: Sigga Leifs