22:17
{mosimage}
(Jón Arnór var með 22 stig hjá KR í kvöld)
KR lyfti deildarmeistaratitlinum í DHL-Höllinni í kvöld eftir 108-94 sigur á Þór Akureyri sem við ósigurinn féll í 1. deild. Þórsarar börðust hetjulega og létu deildarmeistara KR hafa vel fyrir hlutunum en röndóttir reyndust sterkari á lokasprettinum og sendu Norðanmenn niður um deild. KR lauk því deildarkeppninni með 42 stig og tapaði því aðeins einum leik, magnaður árangur hjá Vesturbæingum sem mæta Breiðablik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Ljóst var frá fyrstu mínútu að Þórsarar ætluðu ekki að kveðja úrvalsdeild án þess að minna á sig. Gestirnir komust snemma í 8-14 en þá tóku heimamenn leikhlé og að því loknu komust KR-ingar í 15-14. Darri Hilmarsson var í byrjunarliði KR í kvöld og var sprækur í upphafi leiks sem og Jón Orri Kristjánsson sem gerði 10 stig fyrir Þór í upphafsleikhlutanum sem lauk í stöðunni 25-28 fyrir Þór.
KR virtust ætla að sigla fram úr gestum sínum í öðrum leikhluta en baráttuglaðir Þórsarar komust í 38-45 en Jakob Örn Sigurðarson var duglegur að finna opnu skotin fyrir KR gegn svæðisvörn gestanna og gaf það vel uns Guðmundur Jónsson kom með tvær eldflaugar í röð fyrir Þór og breytti stöðunni í 47-53. KR-ingar áttu þó lokaorðið í fyrri hálfleik og náðu að jafna metin í 55-55 og þannig stóðu leikar í leikhléi og mjög óvanalegt að sjá topplið KR fá jafn mörg stig á sig í einum hálfleik enda vörnin aðalsmerki Vesturbæinga.
Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá KR í hálfleik með 16 stig en þeir Guðmundur Jónsson og Jón Orri Kristjánsson voru báðir með 10 stig hjá Þór.
Hægt og bítandi í síðari hálfleik fóru Vesturbæingar að herða tökin og fljótt var staðan orðijn 76-66 fyrir KR þar sem miðherjinn stóri og stæðilegi, Baldur Ólafsson, hrellti menn í teignum með vörðum skotum og átti hann þar fína innkomu í kvöld með 8 stig, 11 fráköst og 3 varin skot. Óðinn Ásgeirsson klóraði í bakkann fyrir Þór með flautukörfu úr sniðskoti og var staðan 82-74 eftir þriðja leikhluta.
Þór minnkaði muninn í 87-80 þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka en KR-ingar voru rólegir og framkvæmdu sínar aðgerðir af öryggi. Lokatölur urðu svo 108-94 KR í vil en ekkert annað lið í deildinni hefur skorað jafn mikið á KR í DHL-Höllinni og Þórsarar gerðu í kvöld og féllu Norðanmenn með sæmd!
Jakob Örn Sigurðarson og Jón Arnór Stefánsson voru atkvæðamestir í liði KR í kvöld. Jón Arnór með 22 stig, 9 stoðsendingar og 4 stolna bolta en Jakob Örn var með 18 stig og 5 stoðsendingar. Hjá Þór voru Daniel Bandy og Konrad Tota stigahæstir. Bandy með 21 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst en Tota með 17 stig. Jón Orri Kristjánsson var flottur í teignum með 14 stig og 12 fráköst og þá átti Guðmundur Jónsson fínar rispur með 15 stig og 4 stoðsendingar.
KR mætir nýliðum Breiðabliks í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en fyrsti leikur liðanna er næsta sunnudag í DHL-Höllinni.
{mosimage}