spot_img
HomeFréttirHeimasigur gegn Hollandi - Ísland áfram í næstu undankeppni HM 2023 með...

Heimasigur gegn Hollandi – Ísland áfram í næstu undankeppni HM 2023 með þrjá sigra

Íslenska karlalandsliðið tók á móti Hollandi í Ólafssal í Hafnarfirði í kvöld. Leikurinn var seinasti leikur liðsins í fyrri undankeppni evrópskra liða fyrir HM 2023. Ísland var ásamt Hollandi í riðli með Rússlandi og Ítalíu í riðli H.

Hérna er heimasíða mótsins

Fyrir leik

Fyrir leik var ljóst að sama hvað þá færi Ísland áfram í næstu undankeppni sökum þess að Rússlandi hafi verið meinuð þátttaka í undankeppninni eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu fyrir rúmum fjórum mánuðum síðan.

Það sem skipti mestu máli var hve mörg stig Ísland færi með áfram í næstu undankeppni. Í þeim riðli verða, ásamt Íslandi, Holland, Ítalía, Spánn, Georgía og annað hvort Norður-Makedónía eða Úkraína. Úr þeim riðli fara þrjú lið svo hvert stig á eftir að skipta máli.

Samkvæmt heimslista FIBA var Holland veikara liðið enda var það í 47. sæti heimslistans á meðan að Ísland var í 44. sætinu.

Hins vegar þá vantaði einn besta leikmann íslenska liðsins, Martin Hermannsson. Martin sleit krossband fyrir skömmu síðan og því mikið skarð hoggið í landsliðið. Miðað við að fyrri leikur liðanna lauk með aðeins tveggja sigri Íslands þá var þörf á að allir leikmenn liðsins stigu upp til að tryggja sigur.

Gangur leiksins

Ísland opnaði leikinn með laglegu flotskoti hjá Elvari Má á fyrstu mínútu leiksins. Hollendingar áttu framan af mjög erfitt með Tryggva Snæ sem var vígalegur á báðum endum vallarins. Á meðan að Tryggvi var að sækja sín stig inni í teig átti íslenska liðið hins vegar rosalega erfitt með að finna körfuna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Elvar Már átti góðan leik fyrir íslenska landsliðið.

Þó að skotin hafi ekki verið að detta þá hélt vörn Íslands ágætlega og þeir bláklæddu náðu að takmarka sóknargetu hollenska liðsins. Holland þurfti nokkrum sinnum að kasta upp neyðarskoti til að fá ekki á sig 24 sekúndur og ákafi Íslands var ágætur.

Íslenska liðið var í seinni hluta fyrsta leikhlutans aðeins farið að finna sig í leiknum og íslensku stuðningsmenn í salnum byrjaðir að taka við sér. Þá tók Holland sterkan lokasprett til að klára leikhlutann og staðan eftir tíu mínútur því 16-20 fyrir gestunum.

Annar leikhlutinn var erfiður fyrir okkar menn. Það vildi ekkert detta hjá íslenska liðinu sama hversu góðar sóknir og kerfi þeir hlupu. Lok var á körfunni fyrstu 6 mínúturnar í leikhlutanum áður en Tryggvi fékk glæsilega sendingu frá Ægi og kláraði við körfuna þrátt fyrir að brotið var á honum.

Liðið fer yfir stöðuna í öðrum leikhluta þegar engin skot virtust vilja fara niður.

Þetta opnaði hins vegar ekki flóðgáttirnar eins og stuðningsmenn Íslands vonuðu. Íslensku leikmennirnir skoruðu aðeins 5 stig í öðrum leikhlutanum og hefðu verið í erfiðri stöðu ef vörnin hefði ekki haldið. Hollendingar náðu nefnilega ekki að skora nema 15 stig gegn stífri vörn Íslands og hálfleikstölur voru því ekki eins afleitar og annar leikhlutinn gaf til kynna, 21-35.

Ísland þurfti verulega á góðum seinni hálfleik að halda til að næla sér í sigur og byrjuðu strax af miklum þrótti. Á tæplega tveimur mínútum skoruðu þeir 7 stig gegn engu hjá Hollandi og þjálfari gestanna sá sig strax tilneyddan að taka leikhlé.

Hollenska þjálfaranum, Maurizio Buscaglia, leist ekkert á blikuna í seinni hálfleik.

Leikhlé Hollendinga gerði ekki mikið og áfram hélt áhlaup íslenska landsliðsins. Á fjórum mínutum helminguðu þeir muninn og staðan skyndilega orðin 30-38. Vörnin hélt áfram að koma Hollendingum í vandræði sem fengu ítrekað dæmt á sig 24 sekúndur. Á sama tíma keyrðu Íslendingar í bakið á Hollendingum og uppskáru nokkrar körfur í röð þar sem þeir fengu vítaskot að auki.

Jón Axel dekkaður af besta manni Hollendinga í leiknum, Worthy De Jong.

Í hvert sinn sem Tryggvi þurfti að fara út af þyngdist róðurinn talsvert enda höfðu Hollendingar úr nóg af stórum framherjum að moða og þeir gátu aðeins rétt af kútinn meðan landsliðsmiðherjinn okkar sat og kastaði mæðinni.

Þriðji leikhlutinn var mjög góður hjá Íslandi og þeir náðu muninum niður í fjögur stig fyrir fjórða leikhlutann; 47-51. Haukur Helgi, Ægir og fleiri reyndust drjúgir í leikhlutanum enda skoruðu allir nokkrar góðar körfur til að minnka muninn fyrir lokaleikhlutann.

Áfram hélt sókn Íslands í fjórða leikhlutanum og áræðnin leyndi sér ekki. Elvar Már var mjög grimmur að sækja körfur og Tryggvi hélt hollensku vörninni við efnið í teignum. Á fimmtu mínútunni komst íslenska landsliðið yfir í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhlutanum. Tryggvi setti glæsilegt sniðskot eftir góða sendingu frá Ægi Þór.

Ægir Þór átti nokkrar mikilvægar körfur og sendingar í leiknum.

Liðin skiptust á forystunni næstu mínúturnar en undir lokin tók Elvar sig til og sprengdi fram hjá varnarmanninum sínum trekk í trekk og skilaði erfiðum körfum þegar á þurfti að halda.

Lokasekúndurnar voru æsispennandi enda átti íslenska liðið boltann með aðeins meira en skotklukkuna og eins stigs forystu. Skotið geigaði en eftir smá kraðak komst Ægir Þór frá með boltann og Ísland gat spilað klukkuna út. Holland braut þá á Jón Axeli og hann fékk tvö víti með tæpar tvær sekúndur eftir á klukkunni. Hann klikkaði á fyrsta skotinu en klikkaði vísvitandi á því seinna til að Hollendingar næðu ekki að taka leikhlé. Haukur Helgi náði lokafrákastinu með hörkubaráttu og leiktíminn kláraðist áður en Hollendingar gátu brotið á honum. Leiknum lauk því með minnsta mögulega mun; 67-66, Íslandi í vil.

Atkvæðamestir

Tryggvi Snær Hlinason og Elvar Már Friðriksson drógu vagninn fyrir Ísland í þessum leik að öðrum ólöstuðum.

Tryggvi Snær skoraði 20 stig, tók 11 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og varði 3 skot. Mjög góð frammistaða í leik þar sem að mikið mæddi á honum.

Elvar Már skoraði 20 stig sömuleiðis, tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Hann hitti úr 9/14 skotum fyrir innan þriggja stiga línuna og var sannkallaður konungur fjórða leikhlutans, en hann skoraði 12 af 20 stigum sínum í þeim leikhluta.

Í liði Hollendinga var sleipasti leikmaðurinn líklega Worthy De Jong. Hann var rosalega hreyfanlegur og duglegur að finna glufur í vörn Íslands í leiknum. Sem bakvörður var hann líka mjög lunkinn að sækja sóknarfráköst (6 talsins). De Jong lauk leik með 15 stigum, 11 fráköstum, 3 stoðsendingum og 3 vörðum skotum.

Kjarninn

Ísland er þá komið áfram í næstu undankeppni evrópskra liða fyrir HM 2023. Liðið fer inn í riðilinn með þrjá sigra og á því ágæta möguleika á sæti á HM að ári. Liðin sem eru komin áfram í næsta riðil eru Spánn, Georgía, Úkraína, Holland og Ítalía.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir: Hafsteinn Snær

Fréttir
- Auglýsing -