spot_img
HomeFréttirSlavica: Mun gefa allt mitt besta í næstu leikjum

Slavica: Mun gefa allt mitt besta í næstu leikjum

12:00
{mosimage}

(Slavica Dimovska)

,,Þetta kom mér á óvart og ég átti alls ekki von á þessu,“ sagði Slavica Dimovska leikstjórnandi Hauka sem í gær var útnefnd besti leikmaður umferða 12-20 í Iceland Express deild kvenna en Slavica verður í eldlínunni með Haukum þegar deildarmeistararnir mæta Hamri í fyrstu undanúrslitaviðureign liðanna sem hefst að Ásvöllum kl. 19:15 í kvöld.

,,Ég er mjög ánægð með verðlaunin í gær en fyrir mér eru þau verðlaun fyrir liðið í heild því körfubolti er liðsíþrótt. Ég hjálpaði Haukaliðinu og Haukaliðið hjálpaði mér í að landa þessum verðlaunum,“ sagði Slavica sem telur að liðin fjögur sem leika í undanúrslitum, Haukar, Hamar, KR og Keflavík, séu öll nokkuð jöfn að styrkleika.

,,Allir eiga möguleika á því að vinna alla svo það er von á mjög spennandi leikjum og ég er bara bjartsýn. Haukar eru með mjög ungt lið en mjög gott engu að síður. Við erum klárar í slaginn,“ sagði Slavica sem segist ekki finna fyrir mikilli pressu í sinn garð.

,,Ef við náum að sýna okkar bestu hliðar og leikum okkar bolta þá munum við ná hagstæðum úrslitum,“ sagði Slavica og var kát með að hafa heimavallarréttinn. ,,Já það er mjög fínt að hafa heimaleikjaréttinn gegn Hamri því þær eiga erfiðan heimavöll þar sem íþróttahúsið er lítið og áhorfendur alveg ofan í manni,“ sagði Slavica sem vonaðist til þess að geta haldið áfram góðri spilamennsku sinni fyrir Hauka.

,,Ég mun gefa allt mitt besta í næstu leikjum og ég vona að allar Haukastelpur geri slíkt hið sama því allar viljum við komast í úrslitin,“ sagði Slavica sem er í nokkuð öðruvísi aðstæðum en hún var í á síðustu leiktíð þegar hún lék með Fjölni sem var í botnslagnum.

,,Mér leið mjög vel hjá Fjölni og þar voru góðar stelpur en ég verð að viðurkenna að hjá Haukum er staðið fagmannlega að hlutunum og það gladdi mig þegar ég kom til Hauka. Í betri liðum getur maður sýnt í raun hvað er í sig varið því í lakari liðum þá er hægt að saka mann um að bera af í síður sterkum hópi en þegar maður skarar fram úr í sterku liði þá er það viðurkenning,“ sagði Slavica sem kvaðst spennt fyrir kvöldinu og vafalítið á hún eftir að hrella varnarmenn Hamars en eftirminnileg er flautukarfa Slavicu gegn Hamri sem tryggði Haukum nauman deildarsigur á konunum úr Blómabænum fyrr á þessari leiktíð.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -