spot_img
HomeFréttirHaukar leiða 1-0 (umfjöllun)

Haukar leiða 1-0 (umfjöllun)

23:00

{mosimage}

Haukar unnu fyrstu viðureign Hauka og Hamars í undanúrslitum Iceland Expressdeildar kvenna í kvöl 66-61 í hörku spennandi leik. Eins og segir leiða Haukar 1-0 en það lið sem fyrr sigrar þrjá leiki fer í úrslit.

Viðureignir þessara liða í vetur hafa verið skemmtilegar og ljóst að engin breyting yrði á í þessum leik.

Íris Ásgeirsdóttir skoraði fyrstu körfu leiksins fyrir Hamar og kom þeim í 0-3. Slavica Dimovska jafnaði leikinn og Haukar komust í kjölfarið í 8-3. Það tók fjórar mínútur fyrir Hauka til að komast yfir og á þeim kafla gerðu leikmenn beggja liða sig seka um nokkuð mikið af mistökum. Liðin skiptust á næstu körfum og áður en leikhlutanum lauk höfðu Hamarsstúlkur náð aðminnka muninn í tvö stig og Haukar leiddu 12-10.

Hamar komst yfir strax í upphafi annars leikhluta 12-13. Haukar settu þá í annan gír og skoruðu 12 stig gegn einu Hamars og voru komnar með vænlega forystu 24-13. Ari Gunnarsson þjálfari Hamars tók þá leikhlé og fór yfir leik sinna kvenna. Það greinilega skilaði árangri því Hamar tók öll völd á vellinum og skoruðu 15 stig gegn aðeins tveim Haukastigum og leiddu þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik 26-28. Hamar hélt forystunni til enda fyrri hálfleiks og voru þremur stigum yfir, 27-30, þegar flautan gall.

{mosimage}

Þriðji leikhluti var jafn og spennandi og skiptust liðin á að skora. Haukar hreinlega áttu öll fráköst í boði voru og var Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir mjög drjúgar fyrir Haukaliðið og enduðu leikinn með meira en helming frákasta Haukaliðsins. Haukar leiddu eftir þriðja leikhluta með þremur stigum eftir að Hamar hafði mest náð fimm stiga forskoti í leikhlutanum. Staðan var 48-45 fyrir Hauka áður en haldið var í loka leikhlutann.

Haukastúlkur mættu grimmar til leiks og juku muninn jafnt og þétt. Eftir um sex mínútna leik voru Haukar komnir ellefu stigum yfir og virtist leikurinn aðeins stefna í eina átt þ.e. yfirburðar sigur Hauka.
Hamarsstúlkur voru ekki á þeim buxunum að láta Hauka taka þetta alltof auðveldlega og þegar átta sekúndur voru eftir voru þær búnar að minnka muninn í þrjú stig, 64-61. Haukar tóku leikhlé og brotið var á Kristrúnu Sigurjónsdóttir þegar tvær sekúndur voru eftir. Kom þetta brot alltof seint til að Hamar gæti notfært sér það og kláraði Kristrún dæmið fyrir Hauka á vítalínunni, 66-61.

Monika Knight var sterkust Hauka með 19 stig og 7 fráköst og Slavica Dimovska var með 13 stig en hún var nokkuð frá sínu besta í leiknum.

Hjá Hamri var Lakista Barkus sterkust með 28 stig og 6 fráköst og þær Julia Demirer og Íris Ásgeirsdóttir voru báðar með 11 stig en Demirer var jafnframt með 15 fráköst.

Næsta viðureign liðanna er á fimmtudaginn 12. næstkomandi í Hveragerði og hefst hann kl. 19:15.

Myndir: [email protected]

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -