13:00
{mosimage}
(Ingibjörg Elva og Jón Halldór eiga titil að verja með Keflavíkurliðinu)
Jón Halldór Eðvaldsson stýrði Keflavíkurkonum að Íslandsmeistaratigninni á síðustu leiktíð og þá höfðu Keflvíkingar betur í úrslitaeinvíginu gegn KR. Liðin mætast í sínum fyrsta undanúrslitaleik í kvöld kl. 19:15 í Toyotahöllinni en þessi tvö lið eru sigursælustu kvennalið landsins. Það lið sem vinnur einvígið leikur til úrslita gegn Haukum eða Hamri.
,,Já, við höfum gengið í gegnum ýmislegt með KR síðasta rúma árið og það er bara búið að vera mjög gaman,“ sagði Jón Halldór en Keflavíkurliðið undir hans stjórn varð Íslandsmeistari í fyrra, KR varð Subwaybikarmeistari í ár undir stjórn Jóhannesar Árnasonar svo þessir tveir þjálfarar ættu að vera farnir að þekkja vel til hvors annars.
,,Það er gaman að mæta KR því liðið er með mikið af flottum íþróttamönnum og þær styrktu sig vel með því að fá Margréti Köru og þá hefur Hildur Sigurðardóttir spilað mjög vel fyrir þær undanfarið svo þetta verður bara mjög skemmtilegt einvígi,“ sagði Jón Halldór en ítrekaði að hann hugsaði oft ekki langt fram í tímann þegar körfubolti væri annars vegar.
,,Þeir sem þekkja mig vita að ég hugsa yfirleitt ekki nema einn dag í einu en þessi leikur í kvöld verður skemmtilegur og ég held að liðið verði tilbúið þó við séum búnar að vera í löngu fríi. Við töpuðum gegn KR í bikarnum og það situr í mannskapnum,“ sagði Jón sem fékk himnasendingu í TaKeshu Watson fyrir úrslitakeppnina en til stóð að hún gengi til liðs við félag í Ástralíu en þar stóðust ekki fögru orðin.
,,Kesha er klárlega einn af bestu leikmönnunum sem hafa spilað á Íslandi. Í vetur höfum við verið í smá basli með meiðsli og það má lítið út af bregða því við erum að fara að mæta góðu liði. Ingibjörg Elva er með brákað rifbein og hefur ekki enn jafnað sig, Svava Ósk er ekki 100% og það er Birna Valgarðsdóttir ekki heldur og svona mætti lengi telja. Maður er liggur við búinn að vera með kransæðastíflu við að púsla þessu saman í vetur og stelpurnar hafa staðið sig gríðarlega vel og margir leikmenn hafa látið ljós sitt skína og því er styrkur í því að fá leikmann eins og Watson til okkar. Fyrir vikið hefur verið pundað á mann að maður sé að kaupa sér titil og þar fram eftir götum en þú vinnur ekki neitt með því að fá einhvern leikmann í liðið því þetta snýst um liðsheildina,“ sagði Jón og bætti við að í upphafi leiktíðar var Watson hluti af heildarmyndinni.
,,Nú er ég með liðið eins og ég ætlaði að vera með það í haust og það verður gaman að sjá hvort við náum ekki að klára dæmið með stæl,“ sagði Jón sem viðurkennir að markmiðið sé að komast áfram í úrslitin því að andvökunætur hefðu fylgt tapinu gegn KR í Laugardalshöll.
,,Ég viðurkenni að ég svaf ekki mikið vikuna eftir að við töpuðum í Höllinni. Ég er mikill keppnismaður og það er óþolandi að vera kominn í stóran leik og gera í brækurnar. Því ætlum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna. Ég er ekki í þessu að öðrum kosti. Fólk veit að liðin eru jöfn svo þetta verður bara mjög fróðleg rimma við KR,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur.