spot_img
HomeFréttirUndanúrslitin í tölfræðilegu ljósi

Undanúrslitin í tölfræðilegu ljósi

7:00

{mosimage}

Undanúrslit Iceland Express deildar karla fara af stað í dag með leik KR og Keflavíkur. Karfan.is hefur lagst í bækur og grúskað í tölfræði einvígjanna.

KR – Keflavík
Leikurinn í kvöld er 84. viðureign liðanna í efstu deild karla og úrslitakeppni. Þau mættust fyrst í Keflavík 1. október 1982 en þá voru Keflvíkingar nýliðar í Úrvalsdeild og var þetta fyrsti leikur þeirra í Úrvalsdeild. Það kom þó ekki í veg fyrir sigur þeirra, 111-94. Síðan þá hefur Keflavík unnið 49 af leikjum liðanna eða 60,2%. Stærsti sigurinn var í undanúrslitum úrslitakeppninnar 1997 þegar Keflavík vann 113-59, eða með 54 stigum og af 22 stærstu sigrunum í innbyrðisviðureignum liðanna hefur Keflavík unnið 20 sinnum. Liðin hafa mæst sex sinnum í úrslitakeppni, fyrst 1989 í úrslitum þegar Keflavík vann í oddaleik. Undanúrslitaeinvígi þeirra núna er fjórða undanúrslitaeinvígi þeirra og hefur Keflavík allataf unnið, 1991 og 1992 í oddaleik en 1997 í fjórum leikjum. Viðureignirnar í úrslitakeppni eru 19 og hefur Keflavík unnið 11.

KR ingar hafa orðið Íslandsmeistarar 10 sinnum en Keflavík 9 sinnum. Keflavík hefur 13 sinnum komist í lokaúrslitin en KR 5 sinnum.

KR hefur verið í Úrvalsdeild frá stofnun hennar 1978 og hafa leikið alls 702 leiki í deildinni sjálfri og unnið 423, skorað 59950 stig en fengið á sig 56822. Sigurhlutfall þeirra er það fjórða besta í sögu Úrvalsdeildar eða 60,3%. Keflavík hins vegar kom eins og fyrr segir upp í Úrvalsdeild haustið 1982 og hefur verið þar síðan með einni undantekningu, veturinn 1984-85 voru þeir í 1. deild. Þeir hafa leikið 602 leiki í deildinni og unnið 430, skorað 55499 stig og fengið á sig 49613. Sigurhlufall þeirra er það næst besta í sögu Úrvalsdeildar eða 71,4%.

Grindavík – Snæfell
Grindavík og Snæfell hafa mæst 34 sinnum í efstu deild karla og úrslitakeppni. Fyrsti leikurinn var í Grindavík 4. nóvember 1990 og vann Grinadavík stórsigur, 103-51. Það er þó ekki stærsti sigur Grindavíkur á Snæfell en 27. október 1994 unnu þeir með 69 stigum, 128-59. Grindavík hefur þó ekki unnið alla leiki liðanna en þó hafa þeir örlítið betra sigurhlutfall, hafa unnið 18 en Snæfell 16. Liðin hafa einu sinni mæst í úrslitakeppni en það var einmitt í undanúrslitum í fyrra þar sem Snæfell hafði betur 3-1 eftir tvíframlengdan leik í Stykkishólmi.

Grindavík hefur 1 sinni orðið Íslandsmeistari en Snæfell aldrei. Snæfell hefur þrisvar komist í lokaúrslitin og alltaf mætt Keflavík en Grindavík hefur komist sex sinnum í lokaúrslitin.

Grindavík kom fyrst upp í Úrvalsdeild haustið 1987 og hefur verið þar síðan. Þeir hafa leikið 522 leiki í deildinni og unnið 349, skorað 46549 stig og fengið á sig 43170. Sigurhlutfall þeirra er það þriðja besta í sögu Úrvalsdeildarinnar eða 66,9%. Snæfell kom fyrst í Úrvalsdeild haustið 1990 og var tímabilið í vetur það 14. sem þeir leika í Úrvalsdeild. Þeir hafa leikið 334 leiki í deildinni og unnið 153, skorað 27311 stig og fengið á sig 28632. Sigurhlutfallið er 45,8% sem er það sjötta besta í sögu Úrvalsdeildarinnar.

[email protected]

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -