00:42
{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir og stöllur hennar í KR unnu sanngjarnan sigur á Haukum)
Bikarmeistarar KR komut yfir í einvíginu um Íslandsbikarinn þegar þær sigruðu Deildarmeistara Hauka með níu stigum á Ásvöllum í kvöld, 52-61. Staða KR-inga er vænleg þar sem næsti leikur er í DHL-höllinni en sigra þarf þrjá leiki til að tryggja sér titilinn.
KR stúlkur eru á miklu skriði eftir að hafa lagt Grindavík og sópað Keflavík út úr úrslitakeppninni. Vörn KR-inga var þétt í kvöld. Á sama tíma náði Haukaliðið sér illa á strik þurfa virkilega að spýta í lófana ef þær ætla ekki að láta KR liðið sópa sér einnig úr úrslitakeppninni.
Byrjun leiksins var vægast sagt furðuleg. Hvorugt liðið fann lausn á varnarleik andstæðingsins og voru auðveld skot að fara forgörðum. Fyrsta karfa leiksins kom ekki fyrr en 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum og voru það KR-ingar sem skoruðu hana. KR komst í 0-4 og Haukaliðið skoraði sín fyrstu stig eftir um 7 mínútna leik. Það þarf ekki að fara frekari orðum um stigaskor leikhlutans sem með lægra móti en jafnt var með liðunum 8-8 eftir fyrsta leikhluta.
KR fór á mikið flug í öðrum leikhluta og náði snemma þrettán stiga forystu 12-25. Haukar skoruðu síðustu stig leikhlutans og minnkuðu muninn í sjö stig 18-25 og þar við sat. Haukar voru í sífellu að henda boltanum frá sér nýttu KR-ingar sér það virkilega vel sem og að skot Haukastúlkna rötuðu engan veginn ofan í körfu KR. Skotnýting Haukaliðsins var vægast sagt hörmuleg eða rúm 22% í tveggastiga skotum.
KR var greinilega betra liðið á vellinum í dag og í þriðja leikhluta gerðu þær nánast út um leikinn. Skot þeirra duttu niður og voru leikmenn KR liðisin sem hafa ekki mikið látið að sér kveða í stigaskori að stíga upp og má þar helst nefna Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur sem var stigahæst KR kvenna með 19 stig. KR leiddi með fimmtán stigum eftir þriðja leikhluta 28-43.
Fjórði leikhluti var langur með ólíkindum. KR hélt Haukaliðinu í góðri fjarlægð og spilaði stífa vörn sem fór að endingu í skapið á Haukastúlkum. Ragna Margrét Brynjarsdóttir fékk dæmda á sig tvo óíþróttamannslega dóma með stuttu millibili og var vikið af velli. Þegar skammt var til leiksloka leiddi KR með 12 stigum og tók Yngvi Gunnlaugsson, þjálfari Hauka, upp á því að skipta Slavicu Dimovsku, sem komin var með fjórar villur, inn og út af vellinum líkt og í handbolta þ.e.a.s. hún spilaði einungis sókn Haukaliðsins. Haukar brutu og brutu í von um að brjóta KR liðið niður og eiga von um að minnka muninn og fór gífurlegur tími í vítaskot. Þegar ellefu sekúndur voru eftir af leiknum sloknaði svo öll ljós í íþróttahúsinu og tók smá tíma að koma því í lag. Herbragð Haukaliðsins tókst ekki og að endingu var það KR sem fagnaði sigri á Ásvöllum, 52-61 og leiðir einvígið 1-0.
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var stigahæst KR með 19 stig og 10 fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var henni næst með 15 stig og 9 fráköst.
Hjá Haukum var Slavica Dimovska með 19 stig og 7 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 12 stig.
Næsti leikur liðanna er á mánudag í DHL-höllinni í Vesturbænum og hefst hann kl. 19:15
Mynd: [email protected]