spot_img
HomeFréttirGunnar: Hef aldrei upplifað annað eins!

Gunnar: Hef aldrei upplifað annað eins!

00:02
{mosimage}

(Gunnar Einarsson)

,,Þetta var mjög súrt og það má segja að Keflavík hafi verið flautað út úr þessum leik,“ sagði Gunnar Einarsson leikmaður Keflavíkur í samtali við Karfan.is eftir 129-124 ósigur Keflavíkur í fjórframlengdum leik gegn KR í undanúrslitum Iceland Express deildar karla.

,,Ég er búinn að spila einhverja 700 leiki og hef aldrei kvartað undan dómurum áður en það sást bersýnilega hér í kvöld að annar þeirra ef ekki báðir voru ekki með hjartað á réttum stað og þorðu ekki að dæma samkvæmt sjálfum sér. Það hallaði rosalega á okkur allan leikinn, það tók okkur t.d. 20 mínútur að komast í bónus, ég hef aldrei upplifað annað eins,“ sagði Gunnar vonsvikinn í leikslok en hann fékk fimm villur í leiknum eins og liðsfélagar sínir Jón N. Hafsteinsson, Sverrir Þór Sverrisson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.

,,Reyndar man ég eftir svipuðum leik gegn Grindavík sem fór í þrjár framlengingar hér um árið. Þetta er samt engu líkt og ég hefði vissulega viljað spila meira en hafði lítið um það að segja,“ sagði Gunnar sem sagði það bagalegt að hafa verið svona lengi á bekknum en hann fékk sína fimmtu villu þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta. ,,Það var erfitt að komast ekki inn á og gerir þetta helmingi erfiðara,“ sagði Gunnar sem viðurkenndi að Keflavík hefði gefið allt í leikinn í kvöld.

,,Við sýndum virkilega að við ætluðum okkur sigur og börðumst eins og ljón en það dugði ekki til,“ sagði Gunnar sem sagði að það hefði skipt sköpum ef Þröstur Leó Jóhannsson hefði verið heill heilsu. ,,Vissulega hefði það skipt máli og það skiptir máli að allir sem koma af bekknum séu klárir. Sérstaklega eins og í dag þá spilaði Þröstur á öðrum fætinum en strákarnir sem komu af bekknum í kvöld stóðu sig vel, það verður ekki frá þeim tekið. Með þrjá reynslumestu leikmenn liðsins á bekknum, mig, Jonna og Sverrir var ég farinn að hlakka til þess að spila næsta leik við KR því við áttum þá að eiga þrjá óþreytta leikmenn inni,“ sagði Gunnar en sviptingarnar í leiknum í kvöld voru engu líkar og KR stóð síðan uppi sem sigurvegari. Við inntum Gunnar síðan eftir því hvert yrði framhaldið hjá honum sjálfum.

,,Ég ætla bara að lyfta eins og skepna í sumar og mæta aftur á næsta tímabil ef líkaminn leyfir,“ sagði Gunnar sem er í fantaformi en er engu að síður kominn í sumarfrí með Keflvíkingum.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -