spot_img
HomeFréttirÚrslitaspá: Jón Örn Guðmundsson

Úrslitaspá: Jón Örn Guðmundsson

7:30

{mosimage}

Næstur er Jón Örn Guðmundsson núverandi formaður körfuknattleiksdeildar ÍR en hann lék á ferli sínum með ÍR, Haukum og Þór Ak. og þá hefur hann þjálfað ÍR af og til.

Sjáum hvað Jón Örn hefur að segja:

„Þetta verður vafalítið spennandi úrslitarimma milli óumdeilanlega tveggja bestu liða landsins á yfirstandandi keppnistímabili.  Áður en ég læt spánna í ljós, ætla ég að rýna aðeins í leikmannahóp liðanna og velta upp mögulegum styrkleikum og veikleikum þeirra.

KR      
KR liðið hefur verið afar sannfærandi í allan vetur, ef undan er skilinn úrslitaleikurinn í bikarkeppninni.  Mannskapurinn er ógnarsterkur með besta leikmann deildarinnar, Jón Arnór, í fararbroddi.

 Auk Jóns Arnórs hafa Jakob, Helgi og Jason átt gott tímabil og það er KR-ingum mikilvægt að þessir leikmenn haldi dampi í leikjunum gegn Grindavík.  Fannar Ólafsson gæti reynst Grindvíkingum erfiður, enda eini ekta miðherjinn í þessari seríu.  KR hefur reyndar ekki haft í sínum röðum sterkari miðherja síðan Einar Bollason dómíneraði með sínum frægu sveifluskotum upp úr miðri síðustu öld.  Enda lærði Einar leikinn góða af ÍR-ingum í gamla íþróttahúsinu við Túngötu (fyrir áhugasama er rétt að benda á að það íþróttahús er nú staðsett á Árbæjarsafni).  Auk ofangreindra leikmanna munu KR-ingar væntanlega fá mikið framlag af bekknum, enda margir gæðaleikmenn í KR sem þurfa að sætta sig við færri mínútur heldur en þeir fengju hjá öllum öðrum liðum deildarinnar.  Leikmenn eins og Darri, Pálmi, Skarphéðinn og Brynjar munu eflaust láta til sín taka í komandi viðureignum.  Að mínu mati hefur KR meiri breidd en Grindavík, sem gæti skipt sköpum ef serían fer í oddaleik.  KR hefur líka heimaleikjaréttinn og mér finnst ástæða til að hrósa þeim fyrir frábæra umgjörð í tengslum við heimaleiki sína.

Styrkleikar:  Varnarleikur, mikil breidd,  Jón Arnór Stefánsson.
Veikleikar:  Full háðir því að Jón Arnór stígi upp þegar á þarf að halda.

Grindavík
Grindavík hefur verið lang-næstbesta liðið í vetur, enda liðið vel mannað með marga reynslubolta innanborðs.  Nick Bradford hefur fallið vel inn í leik liðsins eftir að hann kom um mitt tímabil og er því afar mikill styrkur.  Svo virðist Helgi Jónas vera að koma mjög sterkur upp og virkilega gaman að sjá þann snjalla leikmann nálgast sitt fyrra form.  Það er algert lykilatriði fyrir Grindvíkinga að Páll Axel nái að yfirvinna meiðslin sem hafa verið að hrjá hann, ef Páll Axel nær sér ekki á strik á Grindavík litla möguleika á að vinna þessa seríu.  Aðrir lykilleikmenn svo sem Brenton, Páll Kristinnsson og Þorleifur verða að eiga góða seríu til þess að Grindavík eigi möguleika á að landa Íslandsmeistarabikarnum.  Þorleifur hefur átt marga stórgóða leiki í vetur er að verða einn skemmtilegasti og besti leikmaður deildarinnar, mikill háloftafugl sem minnir um margt á „gorminn“ Ívar Ásgrímsson sem gerði garðinn frægan með Haukum á árum áður.  Það er orðið langt síðan Grindavík vann sinn eina Íslandsmeistaratitil, sem var árið 1996 þegar Guðmundur Bragason var í aðalhlutverki hjá þeim gulklæddu.  Hungrið er því eðlilega mikið hjá Grindvíkingum sem hafa verið að berjast í toppbaráttunni allar götur síðan, án þess að endurtaka afrekið frá 1996.

Styrkleikar:  Fjölbreyttur sóknarleikur, margar 3ja stiga skyttur, Friðrik Ragnarsson.
Veikleikar:  Varnarleikur og óvissa með ástandið á Páli Axel.

Spáin
Það verður að segjast að KR er mun sigurstranglegri aðilinn, enda hefur ekkert hérlent lið í sögunni verið eins vel mannað og KR liðið er í ár.  Þar eru landsliðsmenn í öllum stöðum og ef mér reiknast rétt til eiga 8 leikmanna liðsins A-landsleiki að baki.  Auk þess er erlendi leikmaðurinn þeirra, Jason Dourisseau, afar fjölhæfur og öflugur leikmaður.  Það væri því í raun stórslys ef KR-ingum tækist ekki að landa þeim stóra að þessu sinni.  Það ber hins vegar að benda á að KR féll á stóru prófi fyrr í vetur, þegar Bikarmeistaratitillinn gekk þeim úr greipum.  Þannig að Grindavík á vissulega möguleika, en til þess þarf allt að ganga upp hjá þeim og KR liðið jafnframt að leika undir getu. 

Spá mín er því sú að KR vinni titilinn í ár, til þess þurfa þeir vonandi 5 leiki.

Tilhlökkunin er mikil og veislan rétt handan hornsins.  Það er vonandi að menn takist hart á en heiðarlega, fátt er nöturlegra en að sjá leikmenn beita fólskubrotum í hita leiksins.  Minni að lokum á sígild orð séra Friðriks Friðrikssonar;  „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði“.

[email protected]

Mynd: www.irsida.is

 

Fréttir
- Auglýsing -