10:00
{mosimage}
Pétur Hrafn Sigurðsson var framkvæmdastjóri KKÍ í 18 ár og þekkir vel spennuna sem myndast hjá félögunum þegar fer að líða að úrslitaeinvíginu, það kom sér oft vel á sínum tíma að hann er sálfræðimenntaður. Pétur fékk sér fróðari mann til aðstoðar við að skrifa hugleiðingarnar en sonur hans Arnar Pétursson aðstoðaði pabba gamla enda Arnar búinn að ná mikið lengra en Pétur á vellinum. Arnar lék með Breiðablik í Iceland Express deildinni í vetur og hefur leikið fjölmarga unglingalandsleiki en segja má að hápunktar Péturs Hrafns á vellinum hafi verið úrslitaleikir í 2. deild með Gnúpverjum hér á árum áður.
Sjáum hvað Pétur og Arnar hafa að segja:
„Þetta er að sjálfsögðu einvígið sem alla dreymdi um að sjá í byrjun tímabils. Þarna eru tvö best mönnuðu lið deildarinnar saman komin og býst ég við hörku einvígi.
Fyrirfram er KR liðið almennt talið sigurstranglegra en Grindavík er langt frá því að vera auðveld bráð. Bæði lið eru með frábæra einstaklinga innanborðs sem geta nánast klárað leiki uppá sitt einsdæmi en þó held ég að liðsheildin eigi eftir að spila meira inní heldur en einstaklingsframtak.
Grindavík er með frábærar þriggja stiga skyttur en ætli þeir sér að vinna þurfa þeir líka að fá körfur inni í teignum. Það sýndi sig best á móti Snæfell að þegar Grindavík var ekki að setja þessi þriggja stiga skot datt leikur þeirra niður á annað plan.
Bæði liðin eru með frábær byrjunarlið sem eru áþekk að styrkleika. Það verða því sjötti og sjöundi maður liðanna sem ráða úrslitum í einvíginu og þar eru KR-ingar sterkari. Ef þeir sem koma af bekknum eru ekki að standa sig og ábyrgðin verður öll á byrjunarliðinu held ég að einvígið gæti endað í fimm leikjum. KR hefur haft meiri stöðugleika frá bekknum og því ættu þeir að klára þetta í fjórum leikjum.
Ég býst við gríðarlega skemmtilegu einvígi þar sem enginn leikur vinnst með meira en sjö stigum.
KR vinnur 3-1”
[email protected]
Mynd: Ólafur Rafnsson