14:00
{mosimage}
Sigurður Elvar Þórólfsson á Morgunblaðinu skrifar skemmtilegan pistil undir „Á vellinum” í blaðið í gær, við birtum það hér.
HÁPUNKTUR keppnistímabilsins í körfuknattleik stendur yfir þessa dagana. Haukar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrrakvöld í kvennaflokki í þriðja sinn á sl. fjórum árum og óska ég Haukum til hamingju með titilinn. KR veitti Haukum mikla keppni enda réðust úrslitin ekki fyrr en í fimmta úrslitaleiknum en KR lék án erlends leikmanns og náði að landa bikarmeistaratitli á þessari leiktíð. Á morgun leika KR og Grindavík fyrsta leikinn í úrslitum í karlaflokki. Og miðað við þau læti sem voru í undanúrslitunum má búast við skemmtilegri „rimmu“.
Það var ætlunin í þessum pistli að fara vísindalega yfir þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir viðureignir KR og Grindavíkur. Ég tók þá ákvörðun að sleppa því. Ástæðan er einföld. Það er ekki hægt. Bæði liðin hafa í sínum röðum frábæra leikmenn sem geta tekið réttar ákvarðanir þegar mest á reynir.
Ég spái því að Íslandsbikarinn fari á loft hinn 13. apríl í fimmta leiknum sem jafnframt verður oddaleikur.
Breyttar aðstæður
Keppnistímabilið 2008-2009 hófst á þeim tíma þegar íslensku bankarnir hrundu hver á eftir öðrum. Forráðamenn flestra liða tóku þá ákvörðun að segja upp samningum við erlenda leikmenn og þjálfara. Íslenskir leikmenn breyttu samningum sínum til þess að aðstoða sitt félag og leikmenn tóku einnig að sér þjálfun liðsins samhliða því að spila með því. Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson voru í því hlutverki hjá Snæfellsliðinu.
„Alls engin óskastaða og við fundum fyrir því að þetta fyrirkomulag hafði mikil áhrif á okkar leik í úrslitakeppninni. Við því er ekkert að gera, við vorum einfaldlega að leysa vandamál sem kom upp sl. haust,“ sagði Hlynur sl. þriðjudag eftir að liðið féll úr leik í undanúrslitunum gegn Grindavík.
Hlynur var með risastóra auglýsingu frá gamla Kaupþingi framan á keppnisbúningnum en hann taldi það ólíklegt að félagið hefði fengið eitthvað út úr þeirri auglýsingu.
„Það voru ekki til peningar til þess að kaupa nýja búninga og það er hálfskondið að vera með þetta framan á sér. Vítanýtingin hefur aldrei verið lélegri hjá mér á ferlinum og kannski er það í takt við gang mála hjá gamla Kaupþingi,“ sagði Hlynur og glotti.
Körfuboltinn hélt velli
Þetta er ískaldur raunveruleiki hjá íþróttafélögum um allt land. Bakhjarlar þeirra til margra ára voru á bak og burt. Tekjuflæðið var aðeins brot af því sem það var áður. En eitt breyttist ekki. Menn héldu áfram að spila körfubolta og lögðu sig fram við að gera eins vel og þeir gátu miðað við „ytri aðstæður“. Það sem mestu máli skipti er að ungir íslenskir leikmenn fengu óvænt tækifæri til að sýna sig og sanna í keppni við þá bestu. Þessi vetur verður þegar upp er staðið einn sá mikilvægasti fyrir þá leikmenn sem skyndilega fengu að axla ábyrgð og tóku „síðasta skotið“ í stað þess að horfa á erlenda leikmenn af bekknum taka slíkar ákvarðanir.
„Skotin hjá Jóni og Helga“
Ég átti ekki von á því að keppnistímabilið 2008-2009 yrði eftirminnilegt fyrir gæði og skemmtilega leiki. Ástæðan var einföld. Flest lið sendu erlendu leikmennina sína heim og tóku þá ákvörðun að halda sínu striki með þeim mannskap sem var til staðar eftir bankahrunið.
Fjórframlengdur leikur KR og Keflavíkur í fjórða leiknum í undanúrslitum í karlaflokki fer í sögubækurnar sem einn „stærsti“ leikur í sögu Íslandsmóts karla. „Skotið“ frá Jóni Arnóri Stefánssyni sem jafnaði metin fyrir KR á lokasekúndum 2. framlengingar verður seint leikið eftir og svona mætti lengi telja úr þeim leik. Daginn eftir þurfti að tvíframlengja í viðureign Grindavíkur og Snæfells. Og ótrúleg þriggja stiga karfa hjá Helga Jónasi Guðfinnssyni, leikmanni Grindavíkur, í fjórða leiknum í Stykkishólmi fer einnig í sögubækurnar. Algjör heppni reyndar en flott karfa engu að síður.
ÍR-ingar riðu á vaðið og sendu skilaboð til annarra liða með því að segja upp samningum við tvo erlenda leikmenn. Snæfell fylgdi í kjölfarið og sagði upp þjálfaranum frá Makedóníu og erlendum leikmönnum liðsins. Keflavík, Grindavík, Þór Akureyri, Skallagrímur, Njarðvík og Breiðablik sögðu upp samningum við erlenda leikmenn og önnur lið sömdu á ný við sína leikmenn til þess að ná niður kostnaði. KR tók þá ákvörðun að halda sínu striki í karlaflokknum og við því er ekkert að segja. Þeir töldu sig hafa fjármagn til þess að ná endum saman á meðan önnur lið sáu ekki fram á að geta það.
Hvað varstu að hugsa?
Það er í „tísku“ þessa dagana að biðjast afsökunar og axla ábyrgð á því sem liðið er. Ég ætla að axla ábyrgð og biðjast afsökunar á grein sem ég skrifaði hinn 25. mars árið 2003 í Morgunblaðið. Þar lagði ég til að úrslitakeppnin yrði lögð niður og leikin yrði fjórföld umferð í átta liða úrvalsdeild. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa á þeim tíma. Úrslitakeppnin er einfaldlega hluti af íslenskum körfubolta og verður það áfram.
Mynd: Morgunblaðið