22:21:56
Nýliðinn Derrick Rose átti stórleik fyrir Chicago Bulls sem lögðu meistara Boston Celtics eftir framlengdan fyrsta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Austurdeildarinnar. Lokatölur voru 103-105, en Rose jafnaði met Kareem Abdul-Jabbar með 36 stigum í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni.
Á meðan unnu Cleveland Cavaliers sigur á Detroit Pistons, 102-84, þar sem LeBron James sýndi að hann væri tilbúinn í slaginn með 38 stigum, en Cleveland var með frumkvæðið allan leikinn.
Nánar um leikina hér að neðan…
Boston Celtics eru að sjálfsögðu án Kevins Garnetts og þurfa greinilega að hugsa sinn leik upp á nýtt eftir að hafa kastað frá sér heimavallarrétinum. Bulls mættu tilbúnir til leiks og náðu mest 11 stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Celtics unnu það upp og komust yfir, 96-95. Rose kom Bulls yfir á ný með tveimur vítum og Paul Pierce fékk færi á að svara í sömu mynt hinum megin á vellinum, en seinna skot hans geigaði og framlenging var staðreynd.
Þar blómstraði framherjinn Tyrus Thomas, sem skoraði sex af átta stigum Bulls í framlengingunni og þrátt fyrir að Pierce og Ray Allen fengju báðir færi til að klára leikinn á lokasekúndunum varð þeim ekki kápan úr því klæðinu því fyrra skotið var varið og Allen klikkaði á lokaskotinu.
Rajon Rondo fór fyrir Celtics með 29 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar og Pierce var með 23. Allen var heillum horfin og gerði aðeins 4 stig og hitti hryllilega og munar aldeilis um minna þegar Garnett er í jakkafötum í stúkunni.
Bulls sýndu hins vegar að þeir hafa hrist af sér slenið sem hefur einkennt þeirra leik síðustu misseri og eiga eftir að láta Celtis hafa fyrir því að komast áfram.
Rothögg LeBron James og Cleveland kom um leið og leikklukkan blés til hálfleiks. James fékk boltann þegar 2 sek voru eftir af hálfleiknum, fór framhjá Tayshaun Prince og skaut rétt við miðju um leið og flautið gall. Eins og hans er von og vísa, fór skotið af spjaldinu og beint ofaní og þakið ætlaði af húsinu í fagnaðarlátum.
Detroit játuðu sig þó ekki sigraða þrátt fyrir að vera undir og náðu að klóra sig aftur inn í leikinn og voru átta stigum á eftir Cavs í upphafi fjórða leikhluta. Þá kom James inn af bekknum og gerði endanlega út um leikinn.
Fyrir utan frammistöðu James átti Joe Smith fína innkomu fyrir Cavs með 13 stig og Zydrunas Ilgauskas var með 12 og 10 fráköst.
Hjá Pistons var Rodney Stuckey með 20 stig og Rip Hamilton með 15.
ÞJ