spot_img
HomeFréttirOrlando og Miami jöfnuðu metin - Nuggets komið í 2-0

Orlando og Miami jöfnuðu metin – Nuggets komið í 2-0


09:04:07
Miami Heat og Orlando Magic jöfnuðu metin í einvígjum sínum í Austurdeildinni með sannfærandi sigrum í nótt á meðan Denver Nuggets unnu annan leikinn í viðureign sinni við New Orleans Hornets.

 

Miami vann sigur á Atlanta í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, 93-108, þar sem stigakóngurinn Dwayne Wade fann sig aftur eftir slaka frammistöðu í fyrri leiknum. Hann gerði 13 stig í röð undir lok fyrri hálfleiks og Hawks gerðu sig aldrei lóklega til að ógna forskotinu sem fór mest í 18 stig, en minnst í 7 stig. Heat fara því á heimavöll sinn með dýrmætan útisigur í farteskinu sem gæti ráðið úrslitum í einvíginu.

 

Wade lauk leik með 33 stig, Daequan Cook var með 20 og Jermaine O‘Neal var með 19. Hjá Hawks var Mike Bibby með 18 stig, Josh Smith með 17 stig og 10 fráköst og Joe Johnson með 16.

 

Á meðan unnu Orlando Magic góðan sigur á Philadelphia 76ers, 96-87, og jöfnuðu metin í rimmunni. Hetja Magic í þessum leik kom út óvæntri átt en það var nýliðinn Courtney Lee, sem hefur verið að finna sig mjög vel undanfarið.

Dwight Howard mátti sætta sig við að fylgjast með síðustu mínútum leiksins af bekknum, en það var eftir að þeir höfðu náð góðu forskoti í þriðja leikhluta. Þó Sixers næðu að klóra í bakkann á lokakaflanum var það ekki nóg og Orlando náði sér í sigur áður en serían færist til Philadelphia.

 

Lee var með 24 stig fyrir Magic, Rashard Lewis og Hoedo Turkoglu voru með 16 hvor, en Howard hélt sig til hlés og gerði aðeins 11 stig og tók 10 fráköst. Hjá Sixers var Anrde Miller með 30 stig, Andre Iguodala var með 21 og Thaddeus Young var með 20.

 

Loks unnu Denver Nuggets annan öruggan sigur í röð á New Orleans Hornets, 108-93, þar sem Chauncey Billups fór aftur á kostum og skoraði 31 stig.

 

Billups fór illa með ungstirnið Chris Paul og leiddi sína menn í að ná frumkvðinu snemma og héldu Nuggets því allan tímann. Hornets fara því aftur heim með tvö slæm töp á bakinu, en þeir ættu þó að geta unnið það upp því að í fyrra, þegar liðið tókst á við SA Spurs unnu liðin sína hvora 3 leikina, alla með miklum mun, áður en Spurs hafði betur í spennandi oddaleik.

 

Tölfræði leikjanna

 

Mynd/AP

 

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -