spot_img
HomeFréttirGrindavíkurstelpur Íslandsmeistarar eftir framlengdan leik

Grindavíkurstelpur Íslandsmeistarar eftir framlengdan leik

14:08
{mosimage}

(Íslandsmeistarar Grindavíkur í 9. flokki kvenna)

Fyrir úrslitaleikinn í 9. flokki kvenna í dag höfðu Keflvíkingar ekki tapað leik og það sem meira er, Keflavík hafði unnið Grindavík í fjórgang á Íslandsmótinu og það með að jafnaði 29,25 stiga mun. Í dag fengu Grindvíkingar uppreisn æru og það í stærsta leik ársins í 9. flokki kvenna. Spennan var rafmögnuð þegar Grindavík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 49-53 sigri á Keflavík eftir framlengdan leik. Jeanne Lois Figeroa Sicat úr liði Grindavíkur var valin besti maður leiksins með 13 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.

Liðin tóku sér góðan tíma í að þreifa á hvoru öðru í upphafi leiks og var lítið skorað en skjálftinn hvarf á endanum og þá voru það Grindvíkingar sem virtust klárir í slaginn. Grindavíkurstelpur beittu svæðisvörn sem virkaði vel og leiddu þær 11-18 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Jeanne Sicat var að leika vel í Grindavíkurliðinu.

Eva Rós Guðmundsdóttir fékk snemma í öðrum leikhluta sína þriðju villu í liði Keflavíkur og hélt á bekkinn til þess að kæla sig niður en á meðan héldu Grindvíkingar áfram að leika af kænsku. Þegar blásið var til hálfleiks leiddu Grindvíkingar 17-27 en gular voru að leysa vel úr vörn Keflavíkur sem einnig voru að leika svæðisvörn.

Jeanne Sicat var með 10 stig í hálfleik hjá Grindavík en í liði Keflavíkur var Lovísa Falsdóttir komin með 6 stig.

Eva Rós Guðmundsdóttir var greinilega ekki kát með sína frammistöðu í fyrri hálfleik í liði Keflavíkur því strax í upphafi síðari hálfleiks fór hún að láta vel að sér kveða. Skoraði nánast að vild og frákastaði eins og enginn væri morgundagurinn. Keflavík saxaði á forskot Grindavíkur og náðu að jafna í 30-30 þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Grindvíkingar gáfu þó forystuna ekki af hendi og leiddu 36-37 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

{mosimage}

Grindvíkingar höfðu yfirhöndina framan af fjórða leikhluta þó Keflvíkingar væru aldrei langt undan. Keflavík tókst þó að komast upp að hlið Grindavíkur á lokasprettinum með því að jafna 45-45 þegar 1.33 mín. voru til leiksloka. Jöfnunarstigin gerði Ingunn Kristínardóttir eftir að hún stal boltanum og skoraði úr sniðskoti.

Bæði lið fengu fjölmargar tilraunir til þess að ná sigrinum en þegar 12 sekúndur voru til leiksloka héldu Keflvíkingar í sókn. Keflavík náði skoti sem geigaði og Grindavík hirti frákastið og brunuðu upp völlinn en leiktíminn rann út og því þurfti að framlengja í stöðunni 45-45.

Jeanne Sicat kom Grindavík í 45-46 með vítaskoti og þar lágu fyrstu stig framlengingarinnar. Eva Rós Guðmundsdóttir lék ekki með Keflavík í framlengingunni þar sem hún fékk sína fimmtu villu þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fjórða leikhluta. Skarð fyrir skildi hjá Keflavík að missa Evu sem lauk leik með 14 stig og 15 fráköst.

Spennan var gríðarleg í framlengingunni og þegar 2.20 mín. voru til leiksloka voru bæði lið komin með skotrétt. Ingunn Kristínardóttir hélt á línuna fyrir Keflavík og kom Keflavík yfir 49-48.

Alexandra Hauksdóttir kom Grindavík í 49-50 með gegnumbroti þegar 1.33 mín. voru til leiksloka en hún lék nánast allan síðari hálfleik og framlenginguna með fjórar villur. Þegar 30 sekúndur voru til leiksloka héldu Keflvíkingar í sókn og brotið var á Andreu Ólafsdóttur þegar 22 sekúndur voru til leiksloka. Andrea hélt á vítalínuna og brenndi af báðum vítaskotunum og Grindavík náði frákastinu. Keflavík braut þá umsvifalaust á Alexöndru Hauksdóttur sem fór á línuna hinum megin á vellinum og kom Grindavík í 49-51 þar sem hún hitti aðeins úr öðru skotinu.

Keflvíkingar tóku leikhlé og réðu sínum ráðum. Sókn Keflvíkinga hófst á miðjum velli eins og lög gera ráð fyrir en Keflvíkingar fóru óvarlega og misstu boltann frá sér upp í hendur Grindavíkur þegar 7 sekúndur voru eftir og brutu því strax á Alexöndru Hauksdóttur sem setti bæði vítin niður og kom Grindavík í 49-53. Keflavík náði ekki að gera sér mat úr sinni síðustu sókn og því urðu lokatölur 49-53 Grindavík í vil og fyrsti ósigur Keflavíkur í 9. flokki kvenna þetta árið staðreynd!

Magnaður leikur í alla staði en það var varnarleikur Grindavíkur sem fékk mest um það ráðið hvernig leikurinn fór. Grindavík lék svæðisvörn allan leikinn og Keflvíkingum leið ekki vel með að leysa úr þeirri vörn. Þá var skotnýting Keflavíkur afleit en liðið hitti aðeins úr 1 af 20 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Hulda Sif Steingrímsdóttir var stigahæst í liði Grindavíkur með 14 stig og 6 fráköst en Jeanne Sicat var henni næst með 13 stig og 5 fráköst en Alexandra Hauksdóttir átti einnig góðan dag hjá Grindavík með 12 stig og 9 fráköst.

Hjá Keflavík var Eva Rós Guðmundsdóttir með 14 stig og 15 fráköst en hún glímdi megnið af leiknum við talsverð villuvandræði. Næst Evu í liði Keflavíkur var Andrea Björt Ólafsdóttir með 11 stig og 9 fráköst.

Leikir Keflavíkur og Grindavíkur á Íslandsmótinu í 9. flokki kvenna:

1. Keflavík 63-28 Grindavík 35 stiga sigur Keflavík
2. Keflavík 55-39 Grindavík 16 stiga sigur Keflavík
3. Keflavík 62-40 Grindavík 22 stiga sigur Keflavík
4. Keflavík 73-29 Grindavík 44 stiga sigur Keflavík 5. Úrslitaleikur Íslandsmóts: Keflavík 49-53 Grindavík 4 stiga sigur Grindavíkur

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage} 

Fréttir
- Auglýsing -