spot_img
HomeFréttirBenedikt tekur við kvennaliði KR

Benedikt tekur við kvennaliði KR

16:03
{mosimage}

(Er Benedikt svarið fyrir silfurlið KR kvenna?)

Benedikt Guðmundsson er næsti þjálfari kvennaliðs KR í Iceland Express deild kvenna. Þetta staðfesti Benedikt í samtali við Karfan.is rétt í þessu. Eins og flestum er kunnugt stýrði Benedikt KR til Íslandsmeistaratitilsins í karlaflokki á nýafstaðinni leiktíð og vann tvo Íslandsmeistaratitla í Vesturbænum á þremur leiktíðum. Hann söðlar nú um innanhúss í DHL-Höllinni og tekur við silfurliði Íslandsmótsins í kvennaflokki síðustu tvö ár og núverandi Subwaybikarmeisturum KR. Benedikt kvaðst þess feginn í samtali við Karfan.is að vera búinn að eyða óvissunni sem var allsráðandi síðustu daga.

,,Ég held mig í KR, það er óþarfi að fara þaðan,“ sagði Benedikt sem einnig var valinn besti þjálfari ársins á lokahófi KKÍ um síðustu helgi. Um árangurinn síðustu þrjú ár með KR hafði Benedikt þetta að segja: ,,Ég skammast mín ekkert fyrir síðustu þrjú ár hjá félaginu,“ sagði þessi hógværi þjálfari sem hefur reyndar áður þjálfað kvennalið KR er hann stýrði þeim í nokkrum leikjum hér í fyrndinni.

,,Hápunkturinn á þessum síðustu þremur árum með karlalið KR var titillinn í ár og að vinna hann með þessum guttum sem maður hefur þjálfað í gegnum tíðina. Óhætt að segja að maður hafi í langan tíma verið að leggja inn fyrir þessum titli,“ sagði Benedikt og lýst vel á það lið sem hann tekur við úr höndum Jóhannesar Árnasonar fráfarandi þjálfara KR kvenna.

{mosimage}

,,Ég tek við góðu búi en þarna eru duglegir leikmenn með mikinn metnað og ég mæti liðinu með minn metnað svo þetta gæti orðið gaman. Ég get ekki mýkt mig upp úr þessu svo þær verða bara að aðlagast mér,“ sagði Benedikt og sannast þar með hið fornkveðna. ,,Þú kennir ekki gömlum hundi að sitja.“

,,Ég er KR-ingur að upplagi og fannst því óþarfi að fara í annað félag. Ég skoðaði aðra valkosti en mig langaði í KR og ég ætla mér aftur í karlaboltann með KR-liðið þegar tíminn er réttur,“ sagði Benedikt sem einnig gegnir starfi íþróttafulltrúa hjá KR ásamt því að þjálfa einn yngri flokk á næstu leiktíð.

,,Það er léttir að vera búinn að eyða óvissunni og ég ætla að forðast það að bjóða óvissunni í kaffi aftur. Það er lang þægilegast að vita hvað maður er að fara að gera í stað þess að vera í óvissunni,“ sagði Benedikt nýráðinn þjálfari meistaraflokks KR kvenna í Iceland Express deildinni.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -