03:26:17
Meistarar Boston jöfnuðu metin í rimmunni gegn Orlando Magic með frækilegum sigri í nótt, 112-94. Boston voru með undirtökin allan tímann og skipti engu þó Paul Pierce ætti afleitan leik því litlu mennirnir, Rajon Rondo og Eddie House, áttu gólfið og leiddu sína menn til sigurs.
Það var ekki svo að Magic ættu svo agalegan leik almennt, heldur var Dwight Howard, varnarmaður ársins, sem náði sér ekki á strik og skoraði bara 12 stig og varði ekki eitt skot. Á meðan var enginn að taka við keflinu og auka verulega við sig og því fór sem fór. Rondo keyrði upp að körfunni eins og óður maður og House beið fyrir utan og reyndist það bara of sterk blanda. Rondo var með þrennu (15/11/18), sína þriðju í þessari úrslitakeppni, og er hérumbil búinn að festa sig í svipuðum klassa og Chris Paul og Deron Williams með frammistöðu sinni. House var með 31 stig sem er langt umfram það sem hann hefur áður afrekað og einnig bætti Ray Allen við 22 stigum.
Hjá Magic var Rashard Lewis með 17 stig líkt og Mickael Pietrus, en J.J. Redick kom næstur með 15 áður en hann fór af velli með 6 villur undir lokin. Redick hefur komið ágætlega út eftir að hafa fengið aukna ábyrgð í liðinu enda skytta í algjörum sérflokki, en varnarleikur hans er þó eitthvað sem þarf að vinna í.
Nú færist serían yfir til Orlando og verða Magic að vinna sína leiki þar ef þeir ætla að komast áfram því að Boston eru ekki þekktir fyrir mikla gjafmildi á heimavelli.
ÞJ