10:48:50
Cleveland Cavaliers virðast þurfa að bíða lengur eftir verðugum andstæðingum í úrlsitakeppninni en þeir lögðu Atlanta Hawks í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar í nótt, 105-85.
Með sigrinum jöfnuðu þeir tvö NBA-met, en þeir hafa nú unnið fyrstu sex leiki sína í úrslitakeppni með meira en tíu stiga mun og nú hafa þeir unnið þrjá leiki í röð í úrslitakeppni með a.m.k. 20 stigum.
Sigurinn var átakalaus fyrir Cavs sem reiddu sig á vörnina til að kæfa lykilmenn Hawks og þeir hljóta að vera fullir sjálfstrausts fyrir framhaldið, en næstu tveir leikir fara fram í Atlanta.
LeBron James var sem kóngur í ríki sínu í þessum leik þar sem hann skoraði 27 stig og fór sínu fram með erfiðum 3ja stiga skotum, troðslum, sendingum og góðum varnarleik eins og honum er einum lagið. Wally Szerbiak var með 17 stig, Mo Williams 15, Delonte West 14 og Anderson Varejao var með 12. Hjá Hawks var Maurice Evans með 16 stig og var sá eini sem náði að sýna nokkuð. Mike Bibby var með 11 stig, Joe Johnson, sem sneri sig á ökkla, var með 10 og Josh Smith var með 8.
ÞJ