spot_img
HomeFréttirLakers jörðuðu Rockets - Seiglusigur Boston

Lakers jörðuðu Rockets – Seiglusigur Boston

08:23:49
LA Lakers og Boston Celtics tóku forystu í einvígjum sínum í annarri umferð úrslitakeppni NBA. Lakers hefndi fyrir tapið gegn Houston Rockets í fjórða leik með afgerandi stórsigri í nótt, 118-78, en á meðan lagði Boston Orlando að velli 92-88, í mun jafnari leik þar sem Stephon Marbury var óvænt hetja Boston.

Nánar um leikina hér að neðan…

Lakers höfðu mikið að sanna í þessum leik, efast hafði verið um það hvort þeir væru nógu sterkir andlega til að þola mótlæti og  hvort þeir væru svo vissir um að komast í úrslitin að þeir þyrftu ekki að leggja sig fram. Eftir auðmýkjandi tap í síðasta leik Komu þeir hins vegar sterkir til baka og gjörsamlega jörðuðu Houston, sem höfðu barist eins og ljón þrátt fyrir að vera án Yao Ming.

Lakers spiluðu grimma vörn og nýttu sóknir sínar vel og þegar allt gengur upp hjá þeim eiga fá lið roð í þá.

Kobe Bryant var með 26 stig fyrir Lakers, Pau Gasol 16 stig og 13 fráköst, Andrew Bynum var með 14 og Trevor Ariza 13. Hjá Houston var Aaron Brooks með 14 stig, Von Wafer 13 og Louis Scola 12 stig og 13 fráköst.

Orlando virtist ætla að stela öðrum sigri í Boston og taka forskotið í rimmu liðanna, en þeir voru 14 stigum yfir í upphafi fjórða leikhluta í nótt. Boston hafði hitt illa utan af velli, en það breyttist allt þegar rúmar fimm mínútur voru til leiskloka.

Boston skellti í lás í vörninni og skoraði 13 stig í röð, en Magic skoruðu ekki körfu utan af velli það sem eftir lifði leiks. Í fjórða leikhluta fór fremstur Stephon nokkur Marbury sem gerði öll 12 stigin sín í leikhlutanum. Það var svo Glen Davis sem kláraði leikinn af vítalínunni þegar örstutt var eftir af leiknum.

Davis fór fyrir Boston með 22 stig í leiknum, Paul Pierce var með 19 og Ray Alllen var með 13. Hjá Orlando var Rashard Lewis með 19 stig, Hedo Turkoglu með 18, Rafer Alston með 16 og Dwight Howard var með 12 stig og 17 fráköst.

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -