08:23:07
LA Lakers töpuðu fyrir Houston Rockets, 95-80, og Boston Celtics töpuðu gegn Orlando Magic í nótt, 83-75. Þannig er ljóst að báðar viðureignirnar munu enda í oddaleik um helgina og hefðu fáir þorað að spá því, alla vegana ekki að Houston, án Yao Ming, næði að standa í Lakers sem er með fullmannað lið.
Allir vita að Lakers er með miklu betra lið en Houston. Þeir eru með betri skorara, stærri menn í teignum, þetta á ekki að vera neitt mál. Allir nema Houston Rockets, þ.e.a.s.
Rockets hafa ekki verið að stressa sig á álitum spekinganna, heldur mætt á völlinn og barist eins og ljón fyrir félagið og liðsfélagana. Það var einmitt það sem var uppi á teningnum í nótt, en Houston, sem lék á heimavelli, drap leikinn strax í upphafi með ótrúlegum kafla, 17-1, sem gaf tóninn fyrir það sem koma skildi. Þeir voru svo 16 stigum yfir í hálfleik, en í upphafi þess seinni náðu Lakers 16-2 rispu sem gerði leikinn þó meira spennandi. En þeir komust hins vegar aldrei nær og Houston hélt þeim í þægilegri fjarlægð allt til loka.
Nú bíður oddaleikur í LA þar sem Houston mæta með allt að vinna og engu að tapa, en Lakers vita að ef þeir vinna ekki þann leik, skiptir engu máli að hafa unnið 65 leiki í deildarkeppninni.
Kobe Bryant var með 32 stig og Pau Gasol 14 fyrir Lakers. Jordan Farmar bætti svo við 13 af bekknum. Hjá Houston var Aaron Brooks með 26 stig og Argentínumaðurinn Louis Scola var með 24 stig og 12 fráköst. Carl Landry bætti við 15 stigum og Ron Artest 14.
Boston er í svipaðri stöðu og Lakers, nema að þeim til afsökunar má benda á fjarveru Kevins Garnett og skrímslið sem gengur undir nafninu Dwight Howard.
Eftir að Howard hafði kvartað yfir að fá ekki boltann nóg í síðasta leik varð honum að ósk sinni í nótt. Hann náði að sýna hvers hann er megnugur og leiddi sína menn til sigurs.
Boston voru að vísu með frumkvæðið framan af og náðu níu stiga forskoti, 31-22 í öðrum leikhluta áður en Magic jafnaði, en Paul Pierce kom sínum mönnum yfir á ný áður en flautað var til hálfleiks.
Leikurinn var í járnum eftir það. Magic komust loks yfir í fyrsta sinn í upphafi fjórða leikhluta, og eftir að hafa skipst á náðu þeir afgerandi tökum á leiknum og kláruðu hann með 11-2 kafla. Banabiti Boston í þessum leik var sóknin sem var í molum, en þeir hittu illa utan af velli og misstu boltann hvað eftir annað.
Annað árið í röð fara Boston Celtics því í oddaleiki í fyrstu tveimur rimmunum og veruðr fróðlegt að sjá hvort það gefi jafn góða raun og síðast.
Howard var með stórleik þar sem hann skoraði 23 stig og tók 22 fráköst, Rashard Lewis var með 20 stig og þeir Rafer Alston og Mickael Pietrus voru með 11. Hjá Boston var Rajon Rondo með 19 stig og 16 fráköst, en hann er 3 stoðsendingum frá því að vera með þrennu að meðaltali í úrslitakeppninni, sem er ótrúlegur árangur hjá manni sem er 185 á hæð og 80 kíló. Næstur honum í nótt var Pierce með 17 stig og Kendrick Perkins var með 15.
Tölfræði leikjanna
Mynd/AP
ÞJ