11:33
{mosimage}
Sauðkrækingurinn Helgi Freyr Margeirsson hélt á heimaslóðir í vetur og lék með Tindastól síðustu mánuði tímabilsins eftir veru í útlöndum. Fyrst í Bandaríkjunum og svo Danmörku með stuttu stoppi á Akureyri. Karfan.is heyrði í kappanum til að forvitnast hvað hann mun gera næsta vetur.
Hvað gerir þú næsta vetur? Aftur til Danmerkur?
Það eru mestar líkur á því að ég fari suður og þá á höfuðborgarsvæðið. Ég er að klára framhaldsnámið mitt núna í sumar þannig að ég er að fara í hálfgert mission impossible í haust sem er að leita að vinnu á höfuðborgarsvæðinu við mitt fag. En á endanum er það svo einfalt að þar sem ég fæ atvinnu í haust ræður því hvar ég verð í vetur.
Í sambandi við Danmörk þá var ofboðslega gott að vera þar en breyttar aðstæður ráða því að ég er ekki á leið til Danaveldis í haust þó ég myndi glaður vilja spila þar áfram enda var ég þar í góðu liði og í skemmtilegum hóp.
Á að finna úrvalsdeildarlið í bænum eða fara í stórvelið Þrymur í utandeildinni og leika með gömlum félögum af Króknum?
Strákarnir í Þrym hafa talað við mig og nefnt það að þeim vanti stundum 12 mann á skýrslu og skrokk á æfingar. Ég vill fá að spila þannig að ætli ég verði ekki að láta úrvalsdeildina duga í vetur allavega 🙂
Hvernig var að koma aftur heim í Tindastól í vetur?
Það var mjög gaman að koma aftur heim, hitta allt fólkið sem vinnur að þessu og styður boltann heima. Það vita það allir sem sáu leiki með okkur að það er margt sem betur hefði mátt fara hjá okkur en uppúr stendur að þetta var skemmtilegur hópur sem vildi allt gott gera en á einhvern óskiljanlegan hátt náði ekki saman og því fór sem fór.
Ég hefði líka alveg viljað koma heim í betra formi og ómeiddur þar sem það er svo langt síðan maður spilaði heima síðast en eina sem maður getur gert í því í dag er að koma til baka sterkari næsta vetur í topp formi.
Nú varð þitt gamla félag í Danmörku í þriðja sæti í dönsku deildinni, ertu búinn að fá sendan bronspening?
Ég bíð allavega ekki við lúguna á daginn eftir því að pósturinn komi…
Þeir stóðu sig vel enda komu leikmaður og þjálfari ársins einnig úr Randers þannig að þetta var flott ár fyrir þá.
Mynd: Helgi Freyr Margeirsson