08:50
{mosimage}
(Kristján Rúnar Sigurðsson)
Skotbakvörðurinn Kristján Rúnar Sigurðsson er einn af nokkrum Njarðvíkingum sem snúið hefur aftur í Ljónagryfjuna. Kristján rétt eins og félagi sinn Rúnar Ingi Erlingsson hefur alið manninn hjá Breiðablik í Kópavogi síðustu tvö leiktímabil en nú fannst honum kominn tími á að snúa heim. Kristján gerði 10,7 stig að meðaltali í leik með Blikum á síðustu leiktíð ásamt því að taka 2,4 fráköst. Hann sagði í snörpu samtali við Karfan.is að hann vissi vel að nú væri þétt skipað í bakvarðastöðurnar í Ljónagryfjunni en fagnaði engu að síður samkeppninni.
Af hverju aftur heim í Njarðvík? Hefðir þú ekki fengið að spila miklu meira í Kópavogi?
Jú ég hefði líklegast spilað meira hjá Breiðablik. Ég ákvað samt að koma aftur heim aðallega vegna þess mig langaði að koma aftur heim en ég bý líka í Njarðvík og keyrslan var orðin þreytt.
Það verður þétt skipað í bakvarðastöðurnar í Ljónagryfjunni, á reynsla þín með Blikum eftir að hjálpa í baráttunni um spilatíma?
Já ég held það. En samkeppni verður mikil sem er gott fyrir mig sem og liðið.
Þú ákvaðst á sínum tíma að fara í Kópavog úr Ljónagryfjunni. Ertu reynslunni ríkari?
Ég tel mig vera reynslunni ríkari. Þetta var gott fyrir mig að fara og spila og fá að gera mistök og læra af þeim. Það var líka bara gott að prófa eitthvað nýtt, þetta voru tvö mjög góð tímabil. Ég átti góð ár hjá Breiðablik.
Hvernig líst þér á næstu leiktíð hjá Njarðvík?
Mér líst vel á þetta, margir að koma heim og ég held að allir séu með sama hugarfar fyrir næstu leiktíð en það er að vinna titla svo ég bíð spenntur eftir tímabilinu.
Mynd: Snorri Örn Arnaldsson