12:01
{mosimage}
Nýr þjálfari Tindastóls, Karl Jónsson, heldur áfram að ganga frá leikmannamálum fyrir næsta vetur. Á heimasíðu Tindastóls í dag kemur fram að Helgi Freyr Margeirsson mun leika með liðinu næsta vetur en sögur voru uppi um að hann væri jafnvel á suðurleið.
Helgi Freyr kom til liðs við Tindastól í febrúar eftir að hafa leikið í Danmörku undanfarin ár og þar áður með Þór á Akureyri og í Bandaríkjunum.
Karfan.is heyrði í Helga lagði fyrir hann nokkrar spurningar.
Nú hljómaðir þú eins og þú værir á suðurleið, hvað kom til að þú ákvaðst að vera áfram á Króknum?
Það skipti öllu máli að ég fékk atvinnu sem rímar vel við mína menntun hérna á Króknum. Einnig togar Skagafjörðurinn í mann og úr honum er alltaf erfitt að fara.
Komu fleiri lið til greina?
Já
Hvernig líst þér á næsta vetur hjá Tindastól? M.a. nýr þjálfari. Ég er mjög spenntur fyrir næsta tímabili. Kalli er mjög skipulagður þjálfari með mikla reynslu og þvílíkan áhuga að hann drífur menn með sér. Svo eru nokkrir ungir strákar í okkar hóp sem eru að berjast við það að komast uppúr því að vera efnilegir í það að verða góðir og ef fram sem horfir þá verðum við með flott lið sem gaman verður að horfa á.
Á hvaða róli verður liðið í deildinni næsta vetur?
Það er erfitt að segja á þessari stundu. Ætli við vinnum þetta ekki bara.
Mynd: Helgi Freyr Margeirsson