spot_img
HomeFréttirMikið fjör í Stelpubúðum

Mikið fjör í Stelpubúðum

9:50

{mosimage}

Landsliðskonurnar Helena Sverrisdóttir og María Ben Erlingsdóttir voru með körfuboltabúðir fyrir stúlkur nú fyrir skömmu. Hópur af stúlkum mætti og hafði gaman af en sökum ónógrar þátttöku mun seinna námskeið þeirra falla niður.

Karfan.is heyrði í þeim stöllum og fékk þær til að segja aðeins frá búðunum.

Við byrjuðum snemma á laugardegi þar sem um 30 sprækar stelpur mættu á Ásvelli tilbúnar í fulla helgi af körfubolta og öðrum skemmtilegheitum. Við byrjuðum á stöðvaþjálfun og fleiri æfingum áður en stelpurnar fengu smá hvíld og hádegismat. Fullar af orku eftir góðan mat var skipt hópnum niður og farið í létta körfuboltaleiki og endað daginn á að spila. Svo var haldið í sund í nýrri Ásvallalaug, áður en leiðin lá uppí Hvaleyrarskóla þar sem við gistum svo. Þar beið okkur pizzuveisla og þegar allir voru saddir var ennþá til nóg af orku, og skiptist hópurinn upp, á meðan sumar voru í snú snú fóru aðrar í körfubolta. Þegar leið á kvöldið,  týndust stelpurnar inn og fengu smá kvöldsnarl. Síðan var farið í smá spurningaleiki, þar sem stelpurnar unnu ýmsan TCU og UTPA fatnað ef þær svöruðu nokkrum spurningum rétt. Það var mjög sjokkerandi fyrir okkur(Helenu og Maju) hvað stelpurnar vissu lítið um  kvennakörfubolta útí heimi, en kannski ekki við öðru að búast, þar sem WNBA fær litla sem enga umfjöllun hérna á Íslandi. En stelpurnar höfðu gaman af, og það var hart barist um að hafa réttu svörin. Eftir smá spjall, danssýningar og fleira fóru allar í háttinn, sáttar eftir góðan dag og tilbúnar í meiri körfubolta og gleði á sunnudeginum.  

Klukkan 9 tók við eitt það erfiðasta verkefni sem við höfum fengið lengi, það var að vekja stelpurnar! Eftir ýmis brögð, voru allar komnar á fætur(tók ekki nema um 40 mínútur að vekja liðið:) ) þá fengu sér allar morgunmat og síðan héldum við niður á Ásvelli til að byrja gamanið. Eftir upphitun og æfingar, fórum við aftur í stöðvaþjálfun og stelpurnar stóðu sig rosalega vel, unnu á fullu og hlustuðu á leiðbeiningar og sáust framför frá fyrri deginum. Þá var komið að dýrindis  hádegismat þar sem allir borðuðu kjúkling til að safna meiri orku, enda tók við ennþá meiri  körfubolti. Skipt var í lið og stelpurnar spiluðu mikið, og frábært að sjá baráttuna í þeim öllum. Þegar allar voru orðnar útkeyrðar eftir mikið spil tóku við ýmsir leikir þar sem stelpurnar kepptu meðal annars í þrautabraut, skotkeppnun lay-up keppnum og fleiru.

Frábær helgi endaði síðan með smá lokahófi þar sem sigurvegara fengu verðlaun, og svo fengu allar grillaðar pylsur, enda búnar að standa sig eins og hetjur yfir helgina.

Stelpurnar eru allar mjög efnilegar og frábærar stelpur, það var æðislegt að fá að eiga með þeim þessa helgi, og sjá hversu efnilegan hóp við eigum hérna heima. Það er von okkar að halda svona Stelpubúðir árlega, og með mikilli vinnu og góðu skipulagi getum við gert þetta að ennþá stærri búðum á næsta ári.

[email protected]

Mynd: Helena/María

Fréttir
- Auglýsing -