10:44:27
Ekki er hægt að segja að val LA Clippers á Blake Griffin með fyrsta valrétti nýliðavalsins hafi komið á óvart, enda var löngu vitað að framherjinn stæðilegi var lang-efnilegasti leikmaðurinn í valhópnum.
Ítarleg umfjöllun körfunnar.is um nýliðavalið hér að neðan…
Þó árgangurinn 2009 sé ekki mjög hátt skrifaður í samanburði við suma af síðustu árgöngum ættu að leynast þar nokkrir góðir leikmenn sem verða í deildinni næstu árin. Stæstu spurningarnar lutu að því hvern Memphis myndu taka með öðrum valrétti. Miðherjinn Hasheem Thabeet og spænski leikstjórnandinn Ricky Rubio voru lengst af taldir líklegastir en mikill aukakostnaður við að kaupa undrabarnð 18 ára varð sennlega til þess að Grizzlies ákváðu að taka áhættuna á að taka Tansaníumanninn risavaxna (221sm). Hann er gríðarsterkur varnarmaður og frákastari, en jafn takmarkaður sóknarlega og hann er góður varnarlega. Hafa margir líkt honum við Dikembe Mutombo og verður þá ekki leiðum að líkjast.
Rubio fór ekki fyrr en Minnesota tóku hann með fimmta valrétti. Minnestota áttu fjóra valrétti í fyrstu umferð, nr. 5, 6, 18 og 28 og tóku merkilegt nokk þrjá leisktjórnendur og einn skotbakvörð, sem gefur til kynna að eitthvað eigi eftir að skipta, enda stóð það heima að 18. valréttinum var skipt til Denver Nuggets.
Rubio gæti mögulega orðið einn besti leikstjórnandi deildarinnar eftir því sem fram líða stundir, en gæti líka verið verðmætur í leikmannaskiptum, enda er hinn nýliðinn, Jonny Flynn, einnig framúrskarandi leikstjórnandi sem gæti vel stýrt liðinu. Hafa heyrst háværar sögusagnir þess efnis að Mike D‘Antoni, þjálfari NY Knicks hafi mikinn áhuga á að fá Rubio til liðs við sig, sérstaklega þar sem þeim gafst ekki kostur á að velja annan góðan bakvörð Stephen Curry, sem Golden State hrifsaði undan nefinu á þeim.
Brandon Jennings, sem varð frægur og um leið afar umdeildur þegar hann ákvað að sleppa skylduárinu í háskóla og leika þess í stað á Ítalíu, var valinn af Milwaukee tíundi í röðinni, sem mörgum fannst full snemmt því að þrátt fyrir að hann sé mikill íþróttamaður, snöggur og nú kominn með reynslu úr atvinnumennsku, er hann alls ekki góð skytta, en Scott Skiles og félagar í Bucks þykjast greinilega geta gert gott úr því.
Þá komu Indinana Pacers mjög á óvart með því að velja háskólahetjuna Tyler Hansbrough frá Norður Karólínu háskóla með 13. valrétti, en það er mál manna að þótt hann sé einn besti leikmaður síðari ára í háskólaboltanum, dugnaðarforkur og góður gæi, verði hann seint svo mikið sem meðalmaður í NBA vegna þess að hann er ekki góð skytta og dæmigerður millimaður þar sem hann er ekki nógu sterkur til að verjast gegn kraftframherjum og ekki nógu snöggur til að taka á skotframherjum. Þá hafi hann notið þess að dómarar létu hann nær alltaf njóta vafaatriða sem mun ekki gerast í NBA. Hann er hins vegar fullviss um að hann eigi eftir að sanna sig og verður fróðlegt að sjá hvort 13 verði lukkutalan hjá Pacers.
Annars var lítið um óvænar uppákomur í valinu fyrir utamn það að SA Spurs náðu að nappa DeJuan Blair með sjöunda valrétti annarar umferðar, en margir héldu að þessi fílsterki og baráttuglaði framherji færri fyrr, jafnvel í hópi „lotterí-valrétta“ í upphafi fyrstu umferðar. Hnémeiðsli hræddu þó hins vegar mörg lið frá en hann gæti enn sannað sig.
Nú hafa leikmenn og liðin heilt sumar til að finna taktinn. Viðbúið er að einhver skipti fari fram, jafnvel síðar í dag, og verður gaman að sjá hvernig fer.
Sjá listann yfir nýliðavalið 2009 á Yahoo! Sports
Flestallir spekingar vestanhafs eru vissir um að Blake Griffin eigi eftir að eiga gifturíkan feril sem kraftframherji, og geti jafnvel lyft hinu vonlausa liði Clippers upp útr öskustónni. Væntingarnar eru þó varfærnar og varla búist við því að hann verði stjarna, en geti þó gert betri hluti en margir aðrir sem hafa komið á undan honum sem fyrsti valkostur síðustu árin.
Til fróðleiks eru hér fyrstu valréttir síðustu 20 ára sumir hafa þegar skráð sig á spjöld sögunnar, en aðrir mega teljast með verstu ákvörðunum í sögu nýliðavalsins (les. Kwame Brown og Michael Olawokandi):
Ár Nafn Lið Skóli
2008 Derrick Rose Chicago Memphis
2007 Greg Oden Portland Ohio State
2006 Andrea Bargnani Toronto Italy
2005 Andrew Bogut Milwaukee Utah
2004 Dwight Howard Orlando SW Atlanta Christian Academy
2003 LeBron James Cleveland St. Vincent-St. Mary HS
2002 Yao Ming Houston China
2001 Kwame Brown Washington Glynn Academy
2000 Kenyon Martin New Jersey Nets Cincinnati
1999 Elton Brand Chicago Bulls Duke
1998 Michael Olowokandi LA Clippers Pacific
1997 Tim Duncan San Antonio Wake Forest
1996 Allen Iverson Philadelphia Georgetown
1995 Joe Smith Golden State Maryland
1994 Glenn Robinson Milwaukee Purdue
1993 Chris Webber Orlando Michigan
1992 Shaquille O'Neal Orlando Louisiana State
1991 Larry Johnson Charlotte Nevada-Las Vegas
1990 Derrick Coleman New Jersey Syracuse
1989 Pervis Ellison Sacramento Louisville
Mynd/AP
ÞJ