spot_img
HomeFréttirVígbúnaðarkapphlaup í Austrinu - Toppliðin styrkja sig

Vígbúnaðarkapphlaup í Austrinu – Toppliðin styrkja sig


15:02:17
Vígbúnaðarkapphlaupið hjá toppliðunum í Austurdeild NBA heldur áfram og nú hefur Orlando Magic gert tveggja ára samning við framherjann Matt Barnes, sem lék með Phoenix Suns á nýafstöðnu tímabili.

 

Barnes skoraði 10 stig og tók tæp 6 fráköst að meðaltali í leik á síðustu leiktíð, en er líka góð þriggja stiga skytta sem getur leikið stöðu skotbakvarðar ef með þarf.

 

Cleveland Cavaliers hafa fengið til sín framherjann Jamario Moon frá Miami Heat og Boston bætti nýlega við sig bakverðinum Marquis Daniels sem hefur verið í herbúðum Indiana síðustu ár.

 

Meðal annarra frétta úr NBA má geta þess að Phoenix hefur endurnýjað samninga við leisktjórnandann Steve Nash sem verður því hjá liðinu a.m.k. í tvö ár til viðbótar og fær hann 22 milljónir dala í laun á samningstímanum.

Jerry Buss, eigandi meistara LA Lakers, hefur gert Lamar Odom nýtt tilboð í stað þess sem hann dró út af borðinu á dögunum. Þótti Buss sem umboðsmaður Odoms sýndi ekki mikla ráðvendni þar sem hann svaraði ekki boði Lakers á meðan hann gaf Miami og Dallas sterklega undir fótinn þó hann vissi að þau félög gætu varla boðið hærra en Lakers.

 

Eru líkur til þess að nýja tilboð Lakers sé ekki eins rausnarlegt og það fyrra, og getur Odom þakkað umboðsmanninum fyrir það. Kobe Bryant, stórstjarna meistaranna, sagði í viðtali við fjölmiðla á dögunum að hann væri bjartsýnn um að Odom yrði áfram hjá liðinu.

 

Þá heyrast sögusagnir þess efnis að NJ Nets séu að íhuga að bjóða Glen Davis hjá Boston Celtics samning, en Boston getur jafnað öll tilboð sem honum berast vilji þeir hafa hann áfram í herbúðum sínum.

 

Enn eru nokkrir góðir bitar án samnings á leikamnnamarkaðnum og nægir þar að minnast á Lamar Odom, Andre Miller, Joe Smith og Allen Iverson, sem virðist hvergi ætla að finna sér lið þrátt fyrir að eiga sennilega mikið eftir í tankinum og ofgnótt af hæfileikum.

Fréttir
- Auglýsing -