Páll Kristinsson framherji þeirra Njarðvíkinga mun verða frá æfingum næstu 3 vikurnar í það minnsta sökum vinnuslys sem kappinn lenti í í gær. Páll starfar sem vélfræðingur hjá hinu umdeilda fyrirtæki HS Orku, brenndist illa á fæti þegar á hann slettist sjóðandi heitt vatn við störf.
„Þetta er annars stigs bruni og á löppinni neðarlega og ristinni. Þó svo að það sé nú aldrei „góður“ tími fyrir þá er þetta vissulega leiðinlegt að lenda í svona korteri fyrir mót. Ég get ekki reimt á mig skó næstu vikurnar sem segir segir manni það að það verða engar æfingar hjá mér.“ sagði Páll Kristinsson í samtali við Karfan.is
„Góðu fréttirnar eru náttúrulega þær að þetta kemur til með að gróa að fullu og þá hef ég leik að fullu. Þetta hefði svo sem hæglega getað orðið verra.“ sagði Páll að lokum. Vissulega slæmar fréttir fyrir þá Njarðvíkinga sem í síðustu viku horfðu á eftir stigahæsta leikmanni sínum á síðasta tímabili, Loga Gunnarssyni til Frakklands.