spot_img
HomeFréttirÖruggur Njarðvíkursigur

Öruggur Njarðvíkursigur

Njarðvíkingar byrjuðu einstaklega vel undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar sem tók við að bróðir sínum korteri í mót. Bæði lið mættu vel stemmd til leiks í kvöld en leikurinn var jafn framan af. Njarðvíkingar settu hins vegar í lás í seinni hálfleik og sigldu að því er virtist nánast auðveldlega fram úr ÍR sem voru að spila í fyrsta skiptið í úrvalsdeild á nýjum heimavelli sínum, íþróttahúsi Kennaraháskólans. Í seinni hálfleik var sigurinn í raun aldrei í hættu og þegar yfir lauk var 18 stiga sigur staðreynd, 70-88.
 
Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og nýttu sér það að Hreggviður var greinilega sjóðandi heitur fyrir utan því eftir þrjár mínútur var hann búinn að leggja þrjár þriggja stiga ofaní og staðan 11-8. Njarðvík var þó aldrei langt undan þó þeir þyrftu að hafa ögn mikið meira fyrir stigunum. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir tekið forskotið, 13-14 með tveimur stigum af línunni frá Páli Kristinssyni. Liðin skiptust á að leiða leikinn það sem eftir lifði leikhlutans. Mikil barátta einkenndi leikinn og dómararnir gáfu ekki tommu eftir en 17 villur voru dæmdar í fyrsta leikhluta. Þegar flautað var til loka leikhlutans höfðu heimamenn yfir 25-24.
 
Njarðvíkingar áttu fyrstu 4 stigin í öðrum leikhluta og virtust ætla að taka leikinn föstum tökum. Næstu mínúturnar einkenndust hins vegar af baráttu frekar en góðum körfubolta. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var leikurinn aftur orðinn jafn 28-28. Það kveikti hins vegar í gestunum sem tóku aðra skorpu og skoruðu næstu 6 stigin þangað til Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR tók leikhlé, 28-34, þegar leikhlutinn var hálfnaður. Njarðvíkingar leiddu það sem eftir lifði leikhlutans en forskotið var komið upp í 7 stig í hálfleik, 37-44.
 
Það voru gestirnir sem byrjuðu seinnihálfleikinn mun betur. Þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar tók Jón Arnar leikhlé fyrir ÍR en þá höfðu gestirnir náð 13 stiga forskoti, 37-50. Það féll lítið með heimamönnum og þeir létu það fara í taugarnar á sér. Villurnar hrönnuðust upp og þegar leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður tók Jón Arnar Hreggvið útaf enda kominn með fjórar villur en hann var langt frá því að vera sá eini sem var í villuvandræðum. Munurinn á liðunum var kominn upp í 20 stig þegar ÍR tók aftur leikhlé í þeirri von að stöðva áhlaup Njarðvíkinga, 37-57. Það var ekki fyrr en eftir rúmlega hálfan leikhlutan þegar ÍR tókst að skora fyrsta stigið sitt í leikhlutanum. Heimamenn gripu svo til þess ráðs að pressa Njarðvík hátt á vellinum sem virtist gefa þeim örlítinn kraft. Forskot Njarðvíkinga fór hins vegar aldrei undir 20 stig þó ÍR hafi skorað 8 stig á seinustu tveimur mínútum leikhlutans. Þegar flautað var til loka leikhlutans stóðu tölur 46-69.
 
Þrátt fyrir óteljandi mistök og einkennilegan varnarleik tókst ÍR að minnka muninn örlítið þegar leið á fjórða leikhluta. Þegar hann var hálfnaður var munurinn kominn niður í 17 stig, 61-78. Mikið nær komust þeir þó ekki og þegar yfir lauk var forskot gestana 18 stig, 70-88.
 
Magnús Gunnarsson var stigahæstur Njarðvíkinga með 24 stig og næstur honum kom Jóhann Árni Ólafsson með 21 stig. Hjá heimamönnum var Nemanja Sovic stigahæstur með 15 stig.
 
 
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
 

 
Fréttir
- Auglýsing -