Haukar unnu öruggan 72-45 sigur á Valsmönnum í gær á Ásvöllum. Eftir leikinn náði karfan.is tali af tveimur mönnum sem voru á einskonar tímamótum. Þessir kappar eru Yngvi Gunnlaugsson og Ingvar Guðjónsson. Yngvi þjálfaði í 8 ár hjá Haukum áður en hann gekk til liðs við Val fyrir þetta tímabil. Hann var að koma í fyrsta skipti á Ásvelli með annað lið en Hauka til að keppa og Ingvar Guðjónsson var að taka fram skóna á ný og lék sinn fyrsta alvöru leik fyrir Haukaliðið í mörg ár.
„Nei þetta fór ekki vel fyrir okkur en vel fyrir Haukana” sagði Yngvi Gunnlaugsson þjálfari Vals þegar karfan.is náði í skottið á honum eftir leikinn.
„Þetta var fastur leikur og mikil harka. Við vorum bara ekki tilbúnir og því fór sem fór.”
„Mér leið ekkert illa og fékk gott kaffi fyrir leikinn. Þetta er í fyrsta skipt sem ég er hérna vinstra meginn og var ekkert mikið að pæla í því. Ég hefði vilja að liðið mitt hefði spilað betur. Við vorum að hitta illa og Haukarnir taka 51 frákast á móti okkur og þar af 21 sóknarfrákast og það er óafsakandi” sagði Yngvi þegar hann var spurður út í hvernig honum hafi liðið vinstra meginn við ritaraborðið.
Fyrir tímabilið var Valsmönnum spáð einu af toppsætunum. Það lág því beinast við að spyrja Yngva hvort að þessi skellur á Ásvöllum hafi verið létt vakning?
„Nei í sjálfum sér ekki. Við erum að lenda í meiðslum á æfingu í fyrsta skipti og svo lendum við í því að henda Snorra (Sigurðssyni) í djúpu laugina og stóð sig vel samt en okkur vantar ákveðin prímusmótor í liðið sem er Sigmar Egilsson og hann hefði hjálpað okkur í þessum leik enda með reynslu úr svona leikjum.”
Ingvar Guðjónsson leikmaður Hauka var að spila sinn fyrsta leik í mörg ár fyrir liðið. Ingvar kláraði leikinn með 5 stig og 4 fráköst á 15 mínútum.
„Hún er mjög góð, virkilega gaman að koma og spila með þessum strákum. Ég hef reynsluna á móti því að þeir hafa miklu betri skrokk þannig að þetta er fínt” sagði Ingvar sem spilaði að vanda í treyju númer 8 líkt og hann gerði hér áður fyrr.
Ingvar þótti góð skytta og þegar hann var spurður að því hvenær fyrsti þristurinn kæmi sagði hann.
„Hann kemur í næsta leik. Þetta var slys að hann hafi ekki farið ofaní áðan.”
Mynd: [email protected]