spot_img
HomeFréttirHamar – FSu: Umfjöllun

Hamar – FSu: Umfjöllun

Í kvöld fór fram leikur Hamars og FSu, í IcelandExpress-deild karla, í Hveragerði. Þetta var 200. leikur Hamars í úrvalsdeild frá upphafi en þetta var í fyrsta skipti sem Hamar og lið frá Selfossi mætast í efstu deild í körfubolta. Rúmlega 200 manns voru í stúkunni og sem fyrr sá Sleggjan, stuðningsmannafélag Hamars, um að berja trommurnar og halda uppi stemningunni.
Marvin Valdimarsson skoraði fyrstu stig leiksins og það gaf áhorfendum aðeins smjörþefinn af því sem koma skyldi frá honum. Nokkuð jafnræði var á með liðunum í byrjun og skiptust liðin á að koma boltanum í körfuna. Eftir hraðann og skemmtilegan 1. leikhluta var staðan 29-25 Hamri í vil.
 
2. leikhluti hófst með sama tempói og mátti sjá í þeim fyrsta. Hamarsmenn voru þó mun grimmari heldur en Selfyssingar og má segja að FSu hafi ekki ráðið neitt við neitt. Þegar að 2. leikhluti var tæplega hálfnaður var staðan orðin 47-32 Hamri í vil og ljóst var að þeir ætluðu ekki að gefa neitt eftir. Frábært var að sjá samspil Andre Dabney og Marvins Valdimarssonar þar sem sá síðarnefndi kláraði flestar sóknirnar eftir frábæran undirbúning Dabneys. Hamars-menn skoruðu 34 stig á móti 12 stigum FSu í þessum hluta leiksins og lauk fyrri hálfleik í stöðunni 63-37. Marvin var kominn með 33 stig á þessum tímapunkti.
 
Hamar hélt áfram að skora í seinni hálfleik og var staðan eftir þrjá leikhluta 87-54. Þarna var ljóst að Hamar myndi sigra, en spurningin var hversu stór sigurinn yrði.
 
Leiknum lauk með 37 stiga sigri Hamars, 111-74, eftir frábæran grannaslag.
 
Marvin Valdimarsson var allt í öllu hjá Hamars-mönnum með hvorki meira né minna en 51 stig.
Svavar Páll Pálsson var með 18 stig og 5 stoðsendingar.
Andre Dabney var með 9 stig og 11 stoðsendingar.
 
Einnig var skemmtilegt að sjá að meiri hlutinn af ungu og óreyndari leikmönnum Hamars sýndu ágætistakta og skoruðu stig.
 
Hjá FSu var Chris Caird með 24 stig en boltameðferð hans var ekki nógu góð og tapaði hann 16 boltum.
Ari Gylfason kom næstur með 15 stig.
 
 
 
Pistill: Jakob Hansen
Myndir: Sævar Logi Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -