Ísland lagði Noreg í dag í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu 2022, 90-44. Leiknir eru fimm leikir á mótinu, en næst leikur Ísland gegn Danmörk á morgun.
Gangur leiks
Íslenska liðið fór heldur betur vel af stað í leiknum. Settu spennustigið frá fyrstu mínútu og héldu Noregi í aðeins þremur stigum fyrstu níu mínútur fyrsta leikhlutans. Gekk einnig ágætlega sóknarlega, en þegar að fyrsti fjórðungur var á enda leiddu þær með 18 stigum, 26-8. Þær norsku tóku aðeins við sér í upphafi annars leikhlutans, en Ísland náði að koma í veg fyrir að þær kæmust inn í leikinn. Staðan 43-20 þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Segja má að Ísland hafi gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann 23-9 og eru 37 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 68-31. Eftirleikurinn að er virtist auðveldur fyrir íslenska liðið, sem sigraði að lokum með 46 stigum, 90-44.
Atkvæðamestar
Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Emma Sóldís Hjördísardóttir með 21 stig og 5 fráköst. Henni næst var Anna Lára Vignisdóttir með 16 stig og 8 fráköst.
Kjarninn
Þetta var líklega ekki sterkasti andstæðingurinn sem Ísland mun mæta á mótinu, en sigur íslenska liðsins engu síður glæsilegur. Mættu brjálaðar til leiks og þrátt fyrir að þær hafi náð að vinna hann nokkuð örugglega þá héldu þær áfram allt til leiksloka.
Hvað svo?
Á morgun kl. 17:30 að íslenskum tíma leika stúlkurnar við Dani.