Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, var ánægður með sigurinn gegn erkifjendum sínum úr Grindavík í DHL-höllinni í kvöld. Fannar skoraði 17 stig og hirti 16 fráköst og á tímabili í leiknum var Fannar einn með jafnmörg ef ekki fleiri fráköst en allt Grindavíkurliðið.
Það er því óhætt að segja að Fannar hafi skilað góðu dagsverki undir körfunni í kvöld. “ Ég er mjög ánægður, við erum náttúrulega 4-0 núna. Það er eitthvað sem að við vissum alveg að við gætum gert en það er svolítið gaman að koma gagnrýnendum á óvart. Við erum samt stutt á veg komnir ennþá, vörnin er ekki alveg eins góð og við viljum hafa hana. Þeir skora 82 stig en við viljum í raun halda öllum liðum undir 70 stigum. En við vörðum heimavöllinn, erum taplausir og það er nátturulega mjög sætt”.
Fannar vildi meina að það væri rimman á milli KR og Grindavíkur sem hefði peppað hann upp í kvöld.
“ Það er alltaf gaman að spila á móti Grindavíkingurliðinu. Það var nátturulega svaka leikur hérna í fyrra og við ætluðum líka að sýna það að það er engin heppni að við urðum meistarar þá. Við erum með helvíti mikið sigurhjarta, með 5 eða 6 stráka sem eru búnir að vinna titilinn tvisvar á seinustu þremur árum þannig að það er mjög öflugt að klára þetta hérna í kvöld”.
Texti og mynd: Gísli Ólafsson