spot_img
HomeFréttirLangþráður sigur heimamanna

Langþráður sigur heimamanna

Það var ekki hágæðakörfuknattleikur sem var boðið upp á í Síkinu í kvöld þegar Blikar komu í heimsókn. Heimamenn voru enn án sigurs fyrir leikinn en Blikar með einn sigur. Tindastóll hafði sigur í leiknum, 66-52, eftir leik sem var þveröfugur miðað við síðasta leik í Síkinu, gegn KR, hægur og lítið fyrir augað.
 
Gestirnir byrjuðu ágætlega í leiknum og voru heitir utan við þriggja stiga línuna. Inn í teignum ríkti hins vegar Amani Bin Daanish sem var að leika sinn fyrsta heimaleik fyrir Tindastól. Hið gríðarlega vænghaf hans ryksugaði allt sem Blikar hentu í átt að körfunni inn í teignum. Sóknarleikur heimamanna var þó stirður og var það helst að Svavar Birgisson finndi leið að körfunni. Bin Daanish var greinilega að reyna að sýna hvað í honum býr en hefði að ósekju mátt gefa boltann meira. Heimamenn leiddu þó með átta í hálfleik.
 
Í þriðja leikhluta gekk hvorki né rak hjá báðum liðum. Blikar virtust þó heldur meira vakandi í byrjun leikhlutans og voru þeir búnir að minnka muninn í þrjú stig þegar Svavar skoraði fyrstu stig heimamanna í leikhlutanum eftir 5 mínútur. Fjórði leikhlutinn rann svo ljúflega framhjá án þess að nokkur spenna yrði í leiknum. Bin Daanish komst meira í samband við sóknarleikinn og Axel Kárason átti tvær mikilvægar körfur og gátu Tindastólsmenn leyft sér að hvíla Svavar stóran hluta lokahlutans. Þá átti Sigmar Björnsson skemmtilega og spræka innkomu í lokin gegn sínum gömlu félögum.
 
Hjá Blikum var John Davis í aðalhlutverki en einnig átti Daníel Guðmundsson ágætan leik í leikstjórnendahlutverkinu og þá var Hjalti Friðriksson duglegur í sóknarfráköstunum framan af leik.
 
Eftir leik hafði Karl Jónsson þetta að segja um leikinn: „Ég er ánægður með varnarleikinn hjá okkur sem lagði grunninn að þessu. Sóknarleikurinn var á köflum ekki alveg nógu ákveðinn, við erum að
venjast Amani í sókninni, hann þarf að læra inn á okkar system og venjast því líka að vera í stóru hlutverki hjá okkur. Hann átti prýðisgóðan leik, ég gaf honum krefjandi varnarhlutverk sem hann skilaði vel og hann sýndi fjölhæfni í vörninni, bæði fyrir utan og inni í teignum sem veitir liðsfélögum hans sjálfstraust úti á vellinum. Annars var það liðsheildin sem skilaði þessu fannst mér, allir á tánum í vörninni og við vorum sem ein heild þar.“
 
Það var heldur þyngri brúnin á Hrafni Kristjánssyni þjálfara Breiðabliks: „Við komum hingað vitandi að þetta yrði erfitt, vorum án fjögurra sem eru venjulega í tólf manna hóp, Þorsteinn Gunnlaugsson líklega puttabrotinn, Sæmundur Oddsson frá og tveir aðrir sem sáu sér ekki fært að koma með. Við ætluðum að halda hraðanum niðri, leik nokkurskonar svæðispressu. Því miður mistókst hún of oft í kvöld og mistök í henni eru dýrkeypt, andstæðingarnir skora auðveldar körfur. Auðveldu körfurnar voru einmitt það sem okkur vantaði í kvöld.
 
 
 
Mynd: Hjalti Árnason
 
Fréttir
- Auglýsing -