Glöggur knattspyrnuáhugamaður sagði áhangendum Tottenham í upphafi yfirstandandi leiktíðar að taka mynd af stöðutöflunni því svona myndi hún ekki líta út til lengdar þegar Tottenham tróndi á toppnum. Einhver gæti hafa misst svipuðu orð út úr sér í viðurvist Garðbæinga en sá hinn sami þyrfti að éta hatt sinn akkúrat í dag.
Stjörnumenn hafa nú unnið fimm fyrstu deildarleiki sína og sitja á toppnum ásamt Njarðvíkingum. Karfan.is ræddi við Teit Örlygsson þjálfar Stjörnunnar en Teitur og félgar lönduðu í kvöld 83-92 langhlaupssigri á ÍR í Íþróttahúsi Kennaraháskólans.
,,Við vorum reyndar lengi í gang í kvöld, ÍR komst yfir og leiddu m.a. með 10-12 stigum í fyrri hálfleik en við náðum að minnka það fyrir hálfleik. Svo komust þeir aftur yfir í seinni hálfleik en í fjórða leikhluta varð varnarleikurinn okkar einfaldlega betri og Óli Aron kom t.d. mjög sterkur inn. Við fráköstuðum vel og náðum hraðaupphlaupum á þá,“ sagði Teitur en Stjörnumenn eru Kennó að góðu kunnir enda lögðu þeir Val þar í oddaleik um að komast upp í úrvalsdeild.
,,Það voru nú einhverjir í liðinu sem horfðu á þann leik fyrir leikinn í kvöld til þess að keyra sig upp,“ sagði Teitur léttur en hann kann einnig vel við Kennó. ,,Það er ekkert að þessu húsi, körfurnar eru góðar og gólfið er gott en þetta er reyndar skelfilegt fyrir áhorfendur,“ sagði Teitur og viðurkenndi að nú væri vikufríið sem framundan er vel þegið.
,,Þangað til okkar meiddu leikmenn koma inn þá er það verkefni fyrir aðra að stíga upp en sjúkraþjálfarinn okkar er önnum kafinn,“ sagði Teitur og bætti við að byrjun Stjörnunnar í deildinni væri vonum framar. ,,Með Fannar og Guðjón meidda og Birgi veikan alla vikuna og ná að klára þetta á fáum mönnum er vonum framar. Magnús og Jovan eru að spila fjarka og fimmu og eru að leysa þetta mjög vel. Justin er í þvílíku formi og æfði greinilega vel í sumar. Hann hugsar líka vel um sig og þetta á líka við um fleiri í liðinu því við notuðum sumarið vel og það skein í gegn hjá okkur í fjórða leikhluta í kvöld,“ sagði Teitur sem vonar að miðherjinn sinn, Fannar Helgason, verði klár í slaginn í bikarnum gegn Keflavík.
,,Bikarleikurinn gegn Keflavík verður svakalegur leikur og vonandi verður Fannar góður fyrir þann leik og það sem er að hjálpa honum í þessum meiðslum núna er að hann var í mjög góðu formi áður en þetta gerðist,“ sagði Teitur en Fannar Helgason tognaði á hné og það trosnaði upp úr liðböndum í deildarleik gegn Snæfell á dögunum.
Magnús Helgason hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir vasklega framgöngu á vellinum undanfarið og sagði Teitur að Magnús hefði komið sér á óvart. ,,Hann er miklu betri varnarmaður en ég hélt því það var oft talað um hann sem góðan skotmann,“ sagði Teitur og aðspurður hvort Magnús væri réttnefndur Horace Grant í Garðabæ svaraði hann: ,,Magnús er miklu betri skotmaður en Horace Grant.“
Með fimm sigra upp á vasann eru Garðbæingar þá ekki orðnir eitt af aðalskotmörkum deildarinnar? ,,Við viljum bara taka næsta skref upp á við og við bjuggumst ekkert endilega við að vera komnir í 5-0 í upphafi leiktíðar. Staðan 4-1 hefði verið ásættanleg en með hverjum sigri ýtum við einhverjum aftur fyrir okkur og við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup. Það þýðir ekkert að horfa langt fram á veginn og sjá þar lið eins og KR, Njarðvík, Keflavík og Grindavík, það er miklu einfaldara að hugsa um næstu 40 mínútur,“ sagði Teitur sem stýrir næst Stjörnumönnum þann 8. nóvember þegar Keflvíkingar mæta í Garðabæ í Subwaybikarnum þar sem Stjarnan á titil að verja.
Texti: [email protected]
Mynd: [email protected]– Justin Shouse fór á kostum í Kennó