ÍA og Ármann áttust við á Akranesi í kvöld í 32 liða úrslitum Subway bikarsins. Bæði lið leika í 1. deild. Leikurinn í kvöld var lengstum jafn en þó náðu heimamenn 9 stiga forskoti um miðjan þriðja leikhluta 45-36.
Leikurinn byrjaði mjög rólega og virtust leikmenn ekki alveg tilbúnir í verkefnið. Skagamenn voru þó með smá lífi og leiddu 14-8 og svo endaði leikhlutinn 18-15. Heimamenn héldu áfram að leiða leikinn og í öðrum leikhluta virtust þeir vera með leikinn í góðu jafnvægi en sprækir Ármenningar voru aldrei langt undan. tölur eins og 24-19 og 31-28 sáust í leikhlutanum. Staðan í hálfleik var 37-31.
ÍA – liðið spilaði vel í þriðja leikhluta og náðu mest 9 stiga forskoti 45-36. Ármenningar neituðu hinsvegar að gefast upp og náðu að minnka munin niður í 48-44 og þannig lauk þriðja leikhluta. Ármann byrjaði síðasta leikhlutann mjög vel en á meðan var sóknarleikur heimamanna ekki eins agaður og hann var framan af. Á fyrstu fimm mínútunum leikhlutans skoruðu gestirnir 2-6 og voru búnir að jafna leikinn 50-50 og þarna var jafn í fyrsta skipti síðan í stöðunni 6-6. Ármann komst svo yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 52-54 með tveim vítum frá Halldóri Kristmannsyni. Svo var jafnt 54-54 og 56-56. Þegar ein mínúta var eftir kemur Halldór Kristmannsson gestunum 56-58 yfir. Liðin klikka á næstu tveim sóknum hvort svo þegar 8 sekúndur eru eftir nær Halldór Gunnar Jónsson að jafna leikinn fyrir heimamenn 58-58. Ármann tekur leikhlé og Þorsteinn Húnfjörð kemur gestunum 58-60 yfir og aðeins 2 sekúndur eftir. ÍA tekur leikhlé og náðu einu skoti sem geigaði og gestirnir fögnuðu vel og eru komnir í 16 liða úrslit Subway bikarsins.
Hjá heimamönnum var Halldór Gunnar Jónsson bestur með 15 stig og Ómar Helgason átti einnig fínan leik með 10 stig og 9 fráköst. Hjá gestunum var var Þorsteinn Húnfjörð góður með 10 stig og 7 fráköst og Geir Þorvaldsson átti flottan leik með 10 stig og 5 fráköst.
Texti Kolbrún Íris
Mynd: Samúel Ágúst