spot_img
HomeFréttirIverson í ótímabundið leyfi

Iverson í ótímabundið leyfi

Forsvarsmenn Memphis Grizzlies sendu bakvörðinn Allen Iverson í ótímabundið leyfi frá störfum í gær, en Iverson hefur verið afar gagnrýninn á leikskipulag og störf Lionel Hollins, þjálfara liðsins undanfarna daga.
 
 
Iverson skrifaði undir eins árs samning við Grizzlies í sumar eftir að fullsannað þótti að ekkert annað lið var tilbúið til að taka Iverson að sér. Eftir að hafa lent upp á kant við Detroit Pistons í fyrra var ljóst að þó Iverson hafi vissulega næga hæfileika til að bera er erfitt að gera honum til geðs og hann mun aldrei sætta sig við að koma af bekknum.
 
Í sumar lofaði hann þó bót og betrum og lagði áherslu á að hann vildi hjálpa hinu unga liði Memphis og væri sama hversu mikið hann fengi að spila.
 
Eitthvað virðist hins vegar hafa breyst síðan þá því að eftir að hafa misst af öllu undirbúningstímabilinu og fyrstu þremur leikjum vetrarins vegna meiðsla í læri, viðraði hann athugasemdir sínar við hlutverk sitt í liðinu. Þá gagnrýndi Iverson einnig að liðsfélagar hans hafi ekki stillt upp lokaleikkerfinu, þar sem þeir gátu snúið leiknum við, fyrir hann.
 
Í næstu tveimur leikjum var sama sagan. Iverson tuðaði út í eitt eftir leikina og loks var öllum nóg boðið og Michael Heisley, eigandi Grizzlies gaf honum frí vegna "fjölskylduaðstæðna" sem þeir vildu ekki ræða frekar.
 
Fjölmiðlar vestanhafs hafa gert því skóna að Iverson muni ekki snúa aftur og því sé spurning hvort að leikmaðurinn, sem er orðinn 34 ára, komi aftur til leiks í NBA-deildinni yfir höfuð. Það er víst aðeins einn maður sem hefur svarið við því og það er Allen "The Answer" Iverson.

Mynd: Iverson á góðri stundu með Hollins og Heisley

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -