FSu mættu í Hólminn og sóttu Snæfell heim en FSu var enn án sigurs og Brynjar Karl dró fram skóna að nýju eftir að hafa spilað síðast í úrvalsdeild fyrir áramót 2000/01. Brynjar er 36 ára og var einn af sprækari mönnum FSu í kvöld.
Snæfell byrjaði 5-0 strax með körfum frá Hlyn og Sean Burton en FSu bætti í og náði að narta 5-4. Snæfellingar gerðu sér ekki auðvelt fyrir í byrjun fyrsta hluta og voru að ekki að hitta mörgum góðum skotum og missa boltann klaufalega. Undir lok hlutans gáfu FSu menn eftir og Snæfell datt í að spila á sínum hraða og komust úr 11-8 í 19-8. Fsu fór að spila fastar en uppskáru ekki mikið nema villur og Snæfell leiddi 24-10 eftir fyrsta fjórðung.
Leikurinn var frekar lítið fyrir augað í öðrum hluta og var frekar mistækur á báða bóga en Fsu náði að hanga í Snæfelli framan af hlutanum og saxa á forskot heimamanna sem var orðið 6 stig 33-27. Fsu voru að spila gróft en Fsu voru fljótt komnir með 12 villur á móti 5 Snæfells. Snæfellingar fóru að hætta að láta þetta pirra sig, sögðu stopp, komust í 49-27 með 16-0 áhlaupi og leiddu þannig í hálfleik.
Í hálfleik hjá Snæfelli var Pálmi kominn með 16 stig og 4 frák. Jón Ólafur með 8 stig og 5 frák. Sean Burton var kominn með 6 stig og Hlynur 8 fráköst. Hjá FSu var Brynjar Karl kominn með 10 stig. Ragnar, Dominic Baker og nýji leikmaður þeirra Aleksas Zimnickas voru með 4 stig hver.
FSu uppskar óíþróttamannslega villu í upphafi þriðja hluta sem var að hjálpa þeim í villusöfnun eingöngu. Fsu hélt aðeins í Snæfell á kafla framan af en Snæfell seig þó lengra frá og komust í 30 stiga mun 70-40 og yfirburðir Snæfells urðu ljósari. 81-49 var staðan fyrir fjórða leikhluta en FSu voru með sinn besta hluta sóknarlega hingað til og gáfu ekkert eftir þó heimamenn væru góðu skrefi á undan.
Sveinn Arnar hjá Snæfelli byrjaði fjórða hluta á að troða á sinn einstaka hátt, eitthvað sem honum leiddist ekki. Páll Fannar var að koma sprækur inn af bekknum en Snæfell var með byrjunarliðið á bekknum í upphafi hlutans. Fsu voru ákveðnari í sínum aðgerðum í seinni hálfleik en máttu sín lítils gegn Snæfelli sem bætti aðeins í en náðu að gera sér eitthvað úr fjórða hluta sem fór 26-25 fyrir Snæfell.
FSu var í vandræðum með villur þegar, Corey Lewis, var þriðji leikmaður þeirra sem fór útaf með 5 villur. Smá læti voru eftir að Egill hjá Snæfelli fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu eftir brot á Corey og var Corey Lewis hjá Fsu eitthvað heitur á því, stjakaði við Steinari Orra dómara og var rekinn af velli. Snæfell kláraði leikinn örugglega 107-74.
Hjá Snæfelli var breiddin mikil og var Pálmi stigahæstur með 19 stig og 8 frák. Hlynur 16 stig og 13 frák. Jón Ólafur og Emil Þór 15 stig hvor. Sean Burton 13 stig 6 frák og 6 stoð. Páll Fannar 10 stig. Hjá FSu var Brynjar Karl ferskur og setti 20 stig. Dominic Baker 18 stig og 7 frák. Corey Lewis 12 stig og 7 frák. Aleksas Zimnicks 11 stig og 9 fráköst.
Texti: Símon B. Hjaltalín.
Ljósmynd: Þorsteinn Eyþórsson