Efsta lið deildarinnar hélt áfram sigurgöngu sinni í Njarðvíkinni í kvöld með sigri á Breiðablik. Þó nokkur getumunur var á liðunum og greinilegt að leikmannaskipti Blika höfðu áhrif á þeirra leik. 78-64 var lokastaða kvöldsins.
Leikurinn hófst með látum og þá sértsaklega varnarmegin hjá liðunum. Njarðvíkingar tóku gott "run" á upphafsmínútum þar sem að Jóhann Árni Ólafsson setti niður 2 troðslur við mikin fögnuð áhorfenda. Blikar voru snöggir að taka leikhlé og náðu að klóra sig aftur inn í leikinn á meðan Njarðvíkingar voru helst til værukærir.
Njarðvíkingar leiddu með 11 stigum í hálfleik og hófu þann seinni með miklum látum. Fljótlega voru þeir komnir með 18 stiga forskot og þá virtist björninn vera unninn. Blikar gerðu enn eina tilraunina til að jafna og náðu að minnka muninn niður í 12 stig en lengra komust þeir ekki og Njarðvíkingar fögnuðu 7. sigri sínum í jafnmörgum leikjum.
Hjá Njarðvík voru Jóhann Árni og Magnús að spila gríðarlega vel. Magnús setti nokkra þrista "úr Keflavík" ef svo má að orði komast og sjóðhitnaði undir kallinum í seinni hálfleik. Jóhann var hinsvegar stöðugari og sallaði niður stigum allan leikinn. Friðrik og Páll fengu svo nóg að gera varnarmegin vallarins. Hjá Blikum var fátt um fína drætti en þeirra bestir voru, Hjalti Friðriksson sem sá til þess einmitt að Friðrik og Páll fengu nóg að gera og Arnar Pétursson sýndi einnig lipra takta.
Blikar telfdu fram nýjum erlendum leikmanni sem komst aldrei í takt við leikinn enda ný lentur á landinu.
Viðtöl hægt að sjá á Karfan TV.